Líkti Framsóknarflokknum við flugeld

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is

„Framsóknarflokkurinn er eins og flugeldur sem skýst upp í loftið og springur þar út en fellur jafnhratt niður og þá er ekki jafnmikil reisn yfir honum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í dag en þar gerðu stjórnarliðar talsverða atlögu að þingmönnum Framsóknarflokksins og sökuðu flokkinn um að slá úr og í varðandi það hvort þörf væri á endurskoðun stjórnarskrárinnar eða ekki.

„Þannig upplifði ég það þegar ég sá þessa yfirlýsingu frá flokknum í gær þar sem hann kom út úr skápnum. Það er líka gott fyrir kjósendur að flokkar sýni hvað þeir standa fyrir, séu ekki með yfirboð og innantóm loforð fyrir kosningar sem þeir standa síðan ekki við,“ sagði Lilja Rafney ennfremur og vísaði þar til tillögu þingflokks Framsóknarflokkinn um auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem fæli í sér óbeint eignarhald þeirra sem nýttu auðlindir sem engu að síður væru eign þjóðarinnar. Var þá kallað úr sal: „ESB?“

„Þetta segi ég við Framsóknarflokkinnvegna þess að hann hefur tjaldað því að hann vilji auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það er ekki sama hvernig auðlindaákvæði við viljum fá í stjórnarskrá. Við viljum fá auðlindaákvæði sem treystir þjóðareign á auðlindum en ekki tryggja í stjórnarskrá óbeinan einkaeignarrétt á auðlindunum eins og Framsóknarflokkurinn lagði til sem málamiðlun í gær,“ sagði hún ennfremur.

Lilja sagði að þarna kæmi fram munurinn á Framsóknarflokknum og VG. „Framsóknarflokkurinn slær skjaldborg um óbeinan einkaeignarrétt þeirra sem nýta auðlindirnar, fiskinn í sjónum, vatnið, jarðhitann, þarna kemur það skýrt fram. Þess vegna á þjóðin að vita hvaða flokkar stilla sér saman um að verja þann óbeina eignarrétt sem við sem höfum staðið hinum megin við línuna viljum ekki. Við viljum þjóðareign á auðlindinni og að hún verði stjórnarskrárvarin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert