Vantrauststillaga Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, á ríkisstjórnina verður tekin fyrir á þingfundi næsta mánudag en sjálfur hafði hann óskað eftir því að tillagan yrði tekin fyrir í dag. Til stóð að taka tillöguna fyrir á morgun en nú hefur því sem fyrr segir verið frestað fram á mánudag.
„Það er alveg rétt, hún verður ekki tekin fyrir fyrr en á mánudag,“ segir Þór í samtali við mbl.is. Hann segir að vaninn sé að vantrauststillögur séu teknar fyrir eins fljótt og mögulegt sé. „En þarna er bara forseti þingsins og meirihlutinn að misbeita valdi sínu en það er svo sem ekkert sem kemur á óvart.“
„Þau eru bara að kaupa sér tíma og það er eitthvað af fólkinu þeirra á ferðalögum og þá misbeita þau valdi sínu svona til þess að geta tryggt að það verði komið heim í tíma svo það þurfi ekki að kalla inn varamenn,“ segir hann.
„Þetta stendur allavega mjög tæpt,“ segir Þór ennfremur spurður hvort hann túlki þetta sem svo að stjórnarmeirihlutinn hafi áhyggjur af vantrauststillögunni. „Það verður gaman að sjá hvað gerist. Ég hef heyrt að einhverjir þingmenn meirihlutans muni ekki mæta í þessa atkvæðagreiðslu. Ég veit ekki hvort þeir muni standa við það.“