„Eitt tryggingafélaganna auglýsir: „Þú tryggir ekki eftirá." Þessu virðast margir vera ósammála og telja að hægt sé að af-verðtryggja eftirá,“ segir Arnar Sigurðsson, starfandi á fjármálamarkaði, í grein í Morgunblaðinu í dag. Verðtrygging hefur verið tilefni umræðu að mestu út frá tilfinningarökum, segir Arnar og eins og oft vill verða ef rökhyggja er víðs fjarri, er hætt við að afraksturinn verði einhverskonar lestarslys.
Í grein sinni segir greinarhöfundur m.a.: „Hin rangnefndu „Hagsmunasamtök heimilanna" ganga út á að færa vísitölu neysluverðs aftur til ársins 2008 fyrir um 20% heimila sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Kostnaðurinn við þessa aðgerð yrði varlega áætlaður um 200 milljarðar. Vert er að hafa í huga að ríkissjóður getur aldrei greitt eitt né neitt, heldur millifærir með valdi peninga úr einum vasa í annan. Siðferðisleg rök hafa ekki farið hátt, eins og t.d. af hverju þau 20% heimila sem leigja eigi að borga niður skuldir þeirra sem þó eiga, nú eða þeir sem hafa borgað allar sínar skuldir og búa í skuldlausu húsnæði.“
Lokaorð Arnars: „Verðtryggðir skuldarar fá svo enn einn skellinn nú um mánaðamótin með hinum nýja sykur8 skatti sem engu mun skila öðru en vísitöluhækkun. Einnig er bent á að laun séu ekki verðtryggð sem er rétt en laun hafa engu að síður hækkað umfram verðlag. Einnig hefur verð fasteigna haldið verðgildi sínu nokkuð vel og virðist vera í hægfara hækkunarfasa. Verst er þó hugmyndin um ríkisvald sem öllu bjargi með lagasetningu. Það eru ýmsar leiðir færar til að kljást við skuldir heimilanna; að banna þær er ekki ein slík.“