Evrópskar ríkisstjórnir ættu að hugsa sinn gang

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hver einasta ríkisstjórn í Evrópu, sérstaklega ríkisstjórnir Bretlands og Hollands, ættu að spyrja sig að því hvers vegna þær höfðu svo rangt fyrir sér í Icesave-málinu og hvers vegna þær settu svo mikinn þrýsting á Íslendinga vegna þess. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina France24 sem sjónvarpað verður á morgun.

Ólafur var þá spurður að því hvort Íslendingar hafi verið beittir kúgunum og sagði hann að það væri sterkt til orða tekið. Það væri hins vegar ljóst að bresk og hollensk stjórnvöld hefðu meðal annars beitt áhrifum sínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að tefja fyrir því að Ísland gæti fengið aðstoð þaðan. Markmiðið hafi verið að knýja Íslendinga til þess að greiða fyrir Icesave-reikningana.

Forsetinn var einnig spurður að því hvort hann teldi að samskipti Íslendinga við Breta og Hollendinga ættu eftir að verða jafn góð og fyrir Icesave-deiluna og sagðist Ólafur ekki í vafa um það. Sagði hann samband Íslands við Bretland vera mjög gott og tók sem dæmi að hann hefði sjálfur boðið David Miliband, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Bretlands, í heimsókn til Íslands.

Hann sagði Íslendinga gera sér grein fyrir því að fyrst og fremst hafi verið um að ræða ákvarðanir teknar af Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra landsins, og að deilan hefði ekki snúist um ágreining við bresku þjóðina eða bresku stjórnmálastéttina eins og hún legði sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert