„Heiðin lokaðist á miðvikudagskvöldið,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði. og hafa íbúar íbúar fjarðarins því verið innlyksa í um tvo sólarhringa. Að vísu tókst að opna Fjarðarheiðina í stuttan tíma í gær, fimmtudag, en vegna veðurs var aðeins opið í stuttan tíma. Vilhjálmur segir Vegagerðina vera í startholunum og ryðji veginn um leið og færi gefst.
„Fólk er bæði veðurteppt á Egilstöðum og á Seyðisfirði,“ segir Vilhjálmur. Margir íbúar fjarðarins starfa í álverinu á Reyðarfirði og komast því ekki til vinnu. Á Egilstöðum eru einnig nokkrir strandaglópar sem komu með flugi í gær en hafa ekki komist á leiðarenda til Seyðisfjarðar. Nemendur í Menntaskólanum á Egilstöðum komast ýmist ekki í skólann eða heim til sín. „Þetta bitnar líka á þeim,“ segir Vilhjálmur.
„Það er sjaldgæft að aðstæður séu svona lengi á þennan veg,“ segir Vilhjálmur. Færðin um heiðina er gjarnan erfið, enda er 600 metra yfir sjávarmáli. Venjulega spillir snjóþungi á heiðinni færðinni en síðastliðna viku hefur verið mikill snjór í fjallshlíðinni sem gerir það að verkum að heiðin lokast. Vilhjálmur segir þetta er ekki vera í fyrsta skipti í vetur sem íbúar á Seyðisfirði lokast inni á þennan hátt en snemma í janúar á þessu ári var Fjarðarheiðin lokuð í fjóra daga.
Vilhjálmur segir að íbúarnir hafi lengi beðið eftir Seyðisfjarðargöngunum. Þau hafi farið í samgönguáætlun í haust og það sé skref í rétta átt. Ljóst er að göngin muni rjúfa einangrun íbúanna við aðstæður sem þessar. Þessi langþráða samgöngubót muni einnig auka öryggi íbúanna.
Vilhjálmur segir að helsta áhyggjuefnið í þessum aðstæðum séu alvarleg veikindi og slys á fólki. „Hér er góð heilsugæsla en aðgangur að sjúkrahúsi er mjög erfiður í aðstæðum sem þessum,“ segir hann. Reynt er að bregðast við þessum aðstæðum með því að senda veikt fólk á sjúkrahúsið ef von er á því að heiðin lokist.
Að sögn starfsmanns í versluninni Samkaupum strax á Seyðisfirði er ekki farið að bera á vöruskorti í búðinni.