Laugardalslaugin er lokuð í dag og á morgun vegna framkvæmda en mikið rask hefur verið á búningsaðstöðu laugarinnar undanfarna mánuði.
Á vef ÍTR kemur fram að opnað verður aftur á sunnudaginn klukkan átta um morguninn en framkvæmdir við búningsklefa laugarinnar hófust í nóvember. Í fyrsta áfanga var karlaklefanum lokað og kvennaklefanum skipt í tvennt á milli kvenna á karla.
Framkvæmdum lýkur í júní ekki í apríl
Áætlað var að þessu myndi ljúka fyrir 1. febrúar og að framkvæmdum við endurnýjun kvennaklefa myndi ljúka í apríl en nú er ljóst að það verður ekki fyrr en um miðjan júní.
Búið er að setja nýjar flísar, hitalagnir, nýtt loftræsingarkerfi, nýtt sturtukerfi og nýir skápar með rafrænum læsingum í þeim klefa sem er tilbúinn.
Búið að endurnýja helming búningsaðstöðunnar
„Þegar opnar í bítið á sunnudag verður búið að endurnýja helming búningsaðstöðunnar inni og fá konurnar að njóta hennar fyrst, en karlarnir fá útiklefana til afnota tímabundið þar til seinni áfanga endurnýjunar lýkur um miðjan júní.
Þá verður aftur boðið upp á kynskipta inniklefa og útiklefa eins og áður var. Það mun þó ekki væsa um karlana í útiklefunum því þar er hiti í gólfum, skápum hefur verið fjölgað og komið hefur verið fyrir sérstökum sturtugámi,“ samkvæmt fréttatilkynningu sem framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar sendi frá sér í dag.
Í dag var verið að hreinsa laugina með háþrýstisprautum. Þá verður einnig fyrir sunnudag búið að flytja inngang aftur í nýju afgreiðsluna en vegna breytinganna þurfti tímabundið að nota eldri inngang.
Miklar framkvæmdir hafa verið við Laugardalslaugina undanfarin tvö ár án þess að það hafi þurft að loka lauginni í langan tíma.
„Það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir góðan skilning okkar gesta sem sýnt hafa biðlund og þolinmæði“, segir Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Laugardalslaugar í tilkynningu.
Meðal endurbóta og breytinga sem lokið er má nefna nýjan hreystivöll, nýjan sjópott, endurnýjun brúar, hitalagnir á sundlaugarbakka með nýju mjúku yfirborði, endurbætur á útiklefum, viðgerð á þaki stúkunnar og nú á sunnudag verður lokið fyrri áfanga endurbóta á búningsherbergjum.