Laun halda ekki í við verðbólgu

Elín Björg Jónsdóttir.
Elín Björg Jónsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar hækkuðu regluleg laun um 4,8% að meðaltali í fyrra. Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 5,1% og laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 4%. Verðbólga árið 2012 var 4,2% þannig að laun opinberra starfsmanna náðu ekki að halda í við verðbólgu. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir þetta miður og að mikilvægast sé að koma tökum á verðbólguna og verja þannig kaupmátt launafólks.

 „Verðbólgan er allt of mikil og það segir sig sjálft að þegar hún hækkar meira en launavísitalan þá rýrnar kaupmátturinn,“ skrifar Elín í pistli á heimasíðu BSRB. 

Þess vegna er brýnasta verkefnið sem stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin standa frammi fyrir að ná tökum á verðbólgunni. Eins og staðan er í dag er það mesta kjarabótin sem hægt væri að færa launafólki því lægri verðbólga hefur ekki bara jákvæð áhrif á kaupmátt launafólks heldur líka verðtryggð lán sem hækka óhóflega þegar verðbólgan er svona há.

Samkvæmt tölum hagstofunnar hækkuðu laun í fjármálaþjónustu mest, um 9%, sem þýðir fimm prósenta kjarabót umfram verðbólgu, og laun sérfræðinga hækkuðu um 7,3%, eða 3% umfram verðbólgu. Á sama tíma hækkuðu laun verkafólks um 3,1% en laun iðnaðarmanna hækkuðu um 4,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert