Líkti forseta Alþingis við Trampe greifa

Frá blaðamannafundi Lýðræðisvaktarinnar í dag.
Frá blaðamannafundi Lýðræðisvaktarinnar í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þar sem 32 þingmenn af 63 hafa lýst því yfir að þeir styðji frumvarp að nýrri stjórnarskrá er Alþingi ekkert að vanbúnaði að samþykkja það fyrir þinglok. Þetta kom fram í máli Þorvaldar Gylfasonar, formanns Lýðræðisvaktarinnar, á blaðamannafundi sem fram fór á veitingastaðnum Sóloni í Reykjavík í dag. Brýna nauðsyn bæri til að þingið leyfði skýrum vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu fram að ganga.

Þorvaldur sagði ennfremur að ef svo illa færi að forseti Alþingis sliti þinginu áður en ný stjórnarskrá fengist afgreidd væri hann í sömu sporum og Trampe greifi þegar hann hefði slitið þjóðfundinum árið 1851 til þess að koma í veg fyrir að tillögur fundarins í stjórnskipunarmálum næðu fram að ganga. Fram kemur í fréttatilkynningu að við því segði Lýðræðisvaktin: Við mótmælum allir, við mótmælum öll.

„Lýðræðisvaktin vill uppræta þá spillingu og klíkustjórnarmál sem viðgengist hafa umliðin ár á Alþingi. Lýðræðisvaktin vill ganga í þau verk sem lengi hafa legið fyrir, eins og taka glímuna við hagsmunaaðila sem enn hefur ekki verið tekin. Lýðræðisvaktin vill þannig skera á togvír stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Lýðræðisvaktin vill bera anda stjórnlagaráðs inn á Alþingi og bæta vinnubrögðin í þess anda og  vera þannig skýr valkostur þeirra sem vilja breytingar í lýðræðisátt í komandi kosningum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert