Ólík staða karla og kvenna

Mun fleiri konur en karlar ljúka framhalds- og háskólanámi á …
Mun fleiri konur en karlar ljúka framhalds- og háskólanámi á Íslandi. Styrmir Kári

Í dag, föstudaginn 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Í tilefni dagsins hafa mannréttindastofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar gefið út bæklinginn Kynlegar tölur, en hann kemur nú út í þriðja sinn. Í bæklingnum má finna ýmsar tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna.

Fleiri konur ljúka námi

Í bæklingnum kemur fram að á Íslandi ljúka fleiri konur en karlmenn námi á háskólastigi en skólaárið 2009 - 2010 brautskráðust 1.187 konur úr háskólum landsins á móti 664 körlum. Á framhaldsskólastigi brautskráðust 1.003 konur en 856 sama skólaár. Kynjamunurinn er einnig töluverður þegar litið er til brautskráninga á háskólastigi eftir námsviði. Töluvert fleiri konur luku námi á menntavísindasviði á skólaárinu 2009-2010 eða 691 kona og 145 karlar. Fleiri karlmenn en konur ljúka námi úr verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð.

Fleiri karlmenn leita fjárhagsaðstoðar

Stærsti hluti þeirra sem nýta sér fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru einhleypir, barnlausir karlmenn, eða 1.891 árið 2012. Einstæðar konur með börn koma þar á eftir. Fram kemur í bæklingnum að árið 2012 hafi 10 karlmenn leitað til Neyðarmóttöku vegna nauðgana en aðeins einn árið áður. Konur sem komu á móttökuna árið 2012 voru 129 en 117 árið áður. Árið 2012 leitaði 241 kona til Stígamóta og 23 karlmenn.

Fleiri karlar kjörnir á þing

Heldur fleiri karlar en konur voru í hópi frambjóðenda til Alþingiskosninga í síðustu þremur kosningum 2003, 2007 og 2009. Einnig hafa fleiri karlmenn verið kjörnir á þing en fleiri konur eru varaþingmenn.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Reykjavíkurborgar en þar má finna bæklinginn Kynlegar tölur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert