Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sér ekki fram á að frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði lagt fram á Alþingi fyrir þinglok þann 15. mars.
„Þetta hefur tekið mun lengri tíma heldur en við reiknuðum með og ég sé ekki fram á það að það verði lagt fram frumvarp núna á þessum dögum sem eftir eru á þessu þingi. En bind þá vonir við að það komi þá inn á netið hjá velferðarráðuneytinu ef að við náum því fyrir kosningar, sem að ég er heldur ekki viss um,“ sagði Guðbjartur þegar hann svaraði fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
„Ég treysti á að þessari vinnu verði haldið áfram í samræmi við þá samþykkt sem Alþingi gerði og reynt að ljúka þessu máli. Ég tel að þarna þurfi að vanda mjög vel til verka. Við höfum óskað eftir því á allan hátt. Það var leitað til sérfræðinga í sambandi við þessa vinnu en það hefur engin fyrirstaða verið eða tafir sem hafa átt að verða á þessu máli, þó að ég hafi ekki sérstaklega verið að reka á eftir því þessa síðustu daga,“ sagði Guðbjartur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Ragnheiður segir að allir séu sammála um það að menn verði að vanda til verka. Hún bendir á að það þurfi jafnframt að eiga sér umræða um staðgöngumæðrun í samfélaginu.
Hún hvatti Guðbjart til að beita sér fyrir því að frumvarpið komi fram „einmitt til þess að umræðan geti farið fram. Hún fer ekki fram í þjóðfélaginu á meðan starfshópurinn [sem undirbýr frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni] er lokaður inni í ráðuneytinu.“
Guðbjartur segist hafa stutt Ragnheiði í því að málið nái fram að ganga. Hann segist hafa ýtt á eftir verkefninu, þrátt fyrir að það hafi verið skoðanir hafi verið skiptar um það með hvaða hætti menn hafi átt að taka á málinu.
„Það er ekkert annað hægt en að harma það að þetta hefur tekið tíma,“ sagði Guðbjartur og bætti við að hann hefði fyrir skemmstu gengið á eftir því að hópurinn skilaði sinni vinnu sem allra fyrst.
„Ég er tek undir með háttvirtum þingmanni að við þurfum einmitt að koma þessu út í umræðuna aftur áður en það fer svo í endanlega afgreiðslu inni í þinginu,“ sagði Guðbjartur.