Frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar um gjaldeyrismál var lagt fram á Alþingi í dag og orðið á lögum á innan við klukkustund. Þau fela í sér að gjaldeyrishöftum verður ekki aflétt fyrr en lausn verður tryggð fyrir Ísland. Þverpólitísk sátt var um málið á þingi.
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að nefndin hafi einróma ákveðið á fundi í morgun að flytja frumvarpið í dag. Það hafi verið kynnt í þingflokkum í hádegishléi á Alþingi, nýr þingfundur settur kl. 13.30 og málið keyrt í gegn. Það kveður á um að gjaldeyrishöft verða ótímabundin og um samráðsferli í tengslum við stærri undanþágur frá höftunum.
Frumvarpið kemur til í framhaldi af samræðum milli fjármálaráðherra, efnahagsráðherra, Seðlabankans, efnahags- og viðskiptanefndar og stjórnarflokkannar um þær stóru ákvarðanir sem framundan eru í tengslum við snjóhengjuna svonefndu og útgreiðslum úr búum fallinna fjármálafyrirtækja sem geta haft umtalsverð áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og skipulag fjármálakerfisins.
Helgi Hjörvar segir að framundan séu gríðarlega stórar ákvarðanir og samstaða sé lykillinn að farsæld. Hann segir gleðiefni að þverpólitísk sátt hafi náðst um málið.