Leggst gegn ætluðu samþykki

AFP

Velferðarnefnd hefur afgreitt tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir. Í nefndaráliti er gerð sú breyting á frumvarpinu að í stað þess að ráðherra verði gert að semja frumvarp sem geri ráð fyrir ætluðu samþykki við líffæragjafir í stað ætlaðrar neitunar verði nefnd skipuð til að kanna hvernig fjölga megi líffæragjöfum frá látnum einstaklingum.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að ráðherra léti semja frumvarp sem yrði þannig úr gerði gert að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hann hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða. Neiti aðstandendur líffæragjöf látins einstaklings skuli þó tekið tillit til þeirrar óskar.

Tillagan var lögð fram af þingmönnum allra þingflokka á Alþingi og ríkti því nokkuð víðtækur stuðningur við hana. Í nefndarálitinu segir hins vegar að ýmis sjónarmið hafi komið fram með og móti fyrirkomulagi um ætlað samþykki við líffæragjafir. Málið veki upp ýmsar siðferðislegar spurningar sem kanna þurfi ofan í kjölinn.

Nefndin telur að vert að kanna meðal annars fyrirkomulag þar sem fullorðnir sjálfráða einstaklingar séu einfaldlega krafðist svars um það hvort þeir vilja gerast líffæragjafar að sér liðnum. „Það gæti t.d. gerst í heimsókn til heimilislæknis á heilsugæslu, með skattframtali eða annarri slíkri aðferð. [...] Kostir þessarar leiðar eru þeir helstir að gera má ráð fyrir að vilji fólks liggi fyrir og auðveldi þannig aðstandendum ákvörðun um líffæragjöf ef til þess kemur að þeir þurfi að taka hana.“

Að endingu var ákveðið að leggja til að ráðherra leggi fram frumvarp sem hafi þann tilgang að fjölga líffæragjöfum og að samhliða því fari fram nauðsynleg samfélagsumræða og fræðsla sem ráðuneytið sjái um að skipuleggja með helstu aðilum sem koma þurfa að umræðunni. Ráðherra verði gert að leggja frumvarpið fyrir Alþingi fyrir árslok 2014.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert