Sakar Bjarta framtíð um hrossakaup

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þingmenn Bjartrar framtíðar settu sem skilyrði fyrir því að verja ríkisstjórnina falli að setja inn ónothæfa leið sem Guðmundur Steingríms hefur talað fyrir. Það er sorglegt að Björt framtíð byrji feril sinn á þingi með slíkum hrossakaupum,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag.

Hún beinir því næst orðum sínum að Jóni Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur sem á sæti á framboðslista Bjartrar framtíðar, og Heiðu Kristínar Helgadóttur, annars formanns flokksins, og hvetur þau til þess að segja „hreint og beint hvort að þau styðji þessa leið og hrossakaupin við að nota hana sem einhverskonar sáttaleið sem engin sátt ríkir um?“

Birgitta segir að tvær leiðir séu í stöðunni að hennar áliti. „Stjórnarskrárfrumvarpið verður ekki samþykkt nú, en málið tekið upp á næsta þingi hugsanlega með breyttum reglum um hvernig breyta megi stjórnarskrá. Tillögur stjórnlagaráðs með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þeim verða lagðar til hliðar (um þær sé jú „bullandi ósátt“), umræður um stjórnarskrárbreytingar fara í sama farveg sem þær voru í fyrir 2008.“

Hin leiðin sé að Alþingi samþykki stjórnarskrárfrumvarpið eins og það sé núna, „haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla um það samhliða alþingiskosningum, þingið samþykkir það aftur (eða fellir) eftir kosningar. Annaðhvort erum við þá komin með nýja stjórnarskrá (sem vafalaust þyrfti að lagfæra eitthvað á næstu árum) eða við erum, samkvæmt þjóðarvilja, hætt við þessa tillögu að stjórnarskrá.“

„Einhvern veginn finnst mér engin spurning hvor leiðin er betri, rökréttari og sanngjarnari. Það er leið 2,“ segir hún að lokum. Þess má geta að áður hafði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, kallað eftir afstöðu Jóns Gnarr til málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert