Skylda þingmanna að greiða atkvæði

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is

Náist ekki niðurstaða í viðræðum um lyktir stjórnarskrármálsins undir forystu Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, ætti engu að síður að greiða atkvæði um frumvarp til stjórnskipunarlaga. Þetta sagði Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun.

Skúli hvað sér hljóðs undir liðnum störf þingsins til að ræða um stjórnarskrármálið. Hann sagði Árna Pála hafa stigið fram fyrir skjöldu til að freista þess að ná breiðri samstöðu þannig að „þetta sögulega og merkilega ferli“ sem staðið hafi um áraskeið nái fram að ganga en verði ekki eyðilegt með „þingtæknilegu ofbeldi“. 

Hann sagði viðræðurnar enn standa yfir og vonast til að þær skili árangri, enda sé það æskilegt. Engu að síður sagðist hann vilja leggja áherslu á að ef ekki nást samningar um lyktir málsins sé það skylda þingmanna að ganga til atkvæða í þinginu um það frumvarp sem til staðar er í þinginu, frumvarp til stjórnskipunarlaga. Það sé skylda þingmanna sökum þess að þjóðin var spurð að því hvort tillögur stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og hafi þjóðin greitt því atkvæði með miklum meirihluta. Það væri því ekki boðlegt að líta framhjá þeirri niðurstöðu.

Skúli sagði það þá koma í ljós í þeirri atkvæðagreiðslu hvort meirihluti sé fyrir málinu í þinginu og þá ráði almenningur með atkvæði sínu í þingkosningunum í vor hvert framhald málsins verði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert