„Fyrst og fremst er þetta mál meirihlutans sem kýs að eyða tímanum sínum í það,“ segir Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, um skýrslu nefndarinnar um lánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings hf. 6. október 2008.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag birti fjárlaganefnd Alþingis skýrslu sína um lánveitinguna í dag. Í henni kemur fram að trúverðugleiki Seðlabanka Íslands geti verið í húfi neiti bankinn Alþingi um útskrift af símtali þáverandi seðlabankastjóra og þáverandi forsætisráðherra um lánveitingu 500 milljón evra lán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008. Fyrir liggi að með lánveitingunni hafi lánareglur Seðlabankans verið brotnar.
Enginn fulltrúi úr nefndinni skrifar undir skýrsluna og því ekki annað að sjá en samstaða hafi verið um hana í nefndinni.
„Nei nei, þetta er ekki okkar mál,“ segir Kristján Þór. Hann segir þetta mál meirihluta fjárlaganefndar og að stjórnarandstaðan hafi ekki tekið þátt í gerð skýrslunnar.