Trúverðugleiki Seðlabankans í húfi

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Trúverðugleiki Seðlabanka Íslands getur verið í húfi með því að neita Alþingi um útskrift af símtali þáverandi seðlabankastjóra og þáverandi forsætisráðherra um lánveitingu 500 milljón evra lán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008. Þetta kemur fram í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis.

Birt hefur verið á vef Alþingis skýrsla fjárlaganefndar til Alþingis um lánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings hf. 6. október 2008. Í henni segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá Seðlabankanum hefur um helmingur lánsins verið endurgreiddur og óvíst hverjar endanlegar heimtur verða. Fyrir liggi 500 milljónir evra lán hafi verið veitt Kaupþingi til fjögurra daga og við þá lánveitingu hafi lánareglur Seðlabankans verið brotnar.

Þá segir að ætla megi að seðlabankastjóri og forsætisráðherra hafi báðir verið vel meðvitaðir um stöðu Kaupþings hf. 6. október 2008 og að gríðarleg áhætta væri því fylgjandi ákvörðun um að lána bankanum slíka upphæð án fullnægjandi trygginga. „Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um aðdraganda hrunsins og falls íslenska fjármálakerfisins má draga þá ályktun að þörfina fyrir þrautavaralánið til Kaupþings hf. hafi ekki borið eins skyndilega að og upphaflega var talið. Því hafi aðdragandinn og þar með tækifæri Seðlabankans til að undirbúa lánveitinguna með nauðsynlegri skjalagerð verið rýmri en áður var talið.“

Ekki séð að bankinn skaðist við að veita upplýsingarnar

Einnig segir að mikilvægt sé að Alþingi verði upplýst um hvort með lánveitingunni hafi verið tekin meiri áhætta með fjármuni ríkisins en forsendur voru fyrir á þeim tíma. „Það er sömuleiðis mikilvægt að Alþingi fái fullnægjandi upplýsingar um ástæður lánveitingarinnar og forsendurnar að baki henni.“

Ennfremur segir að ekki verði séð að Seðlabanki Íslands geti skaðast af því að veita umbeðnar upplýsingar, þvert á móti megi ætla að trúverðugleiki bankans geti verið í húfi með því að leyna þeim fyrir þinginu. „Það er því ekki aðeins sjálfsögð og eðlileg krafa að Seðlabankinn upplýsi þingið án tafar um alla þætti þessa máls heldur skylda hans að gera það.„

Fjárlaganefnd sé ekki unnt að upplýsa nánar um aðdraganda og ástæðu þess að stórum hluta gjaldeyrisvaraforða landsins var ráðstafað. „Fjárlaganefnd felur Alþingi nú að taka ákvörðun um framhald þess máls og að Seðlabanki Íslands verði krafinn um fullnægjandi upplýsingar um 500 milljóna evra (nærri 77,5 ma.kr.) lánveitingu til Kaupþings hf. 6. október 2008.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert