Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærmorgun tillögu innanríkisráðherra um að fresta útboði á strandsiglingum við Ísland. Bæði Samskip og Eimskip hafa tilkynnt fyrirætlanir um strandsiglingar sem hefjast munu á næstu vikum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að með því megi ætla að markmið verkefnisins nái fram að ganga og í því ljósi lagði hann til að útboði yrði frestað en áfram fylgst með framvindu málsins, að því er segir á vef ráðuneytisins.
Þar segir ennfremur að ákveðið hafi verið á fundi ríkisstjórnarinnar 1. mars síðastliðinn að bjóða út strandsiglingar við Ísland en undanfarin misseri hafi fýsileiki strandsiglinga verið kannaður með margvíslegum hætti.