Værukærð yfir fréttum af hagvexti

Hagvxötur var 1,6% á síðasta ári.
Hagvxötur var 1,6% á síðasta ári. AFP

Hagvöxtur ársins 2012 var til umræðu við upphaf þingfundar Alþingis í morgun. Meðal þeirra sem tóku til máls var Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem sagði stjórnarliða furðulega værukæra yfir alvarlegum fréttum sem komið hafa fram. Engar skýringar hafi verið gefnar eða brugðist við. 

„Ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnarliða bregðast við þeim fréttum og reyna gefa skýringar á því að hagvöxtur sem áætlaður var 3,1% endaði í 1,6%,“ sagði Illugi og bætti við að þarna væri um stóralvarleg tíðindi að ræða. 

Þá benti hann á að á sama tíma streymi inn í þingi frumvörp sem kosti ríkissjóð milljarða króna. „Það á meðan hagvöxtur er á niðurleið!“ Hann sagði að stjórnvöld hefðu átt að beita öllum sínum kröftum í að búa til umhverfi sem laðaði að fjárfestingu. En á sama tíma fer fjárfesting niður á við.

Og sökum þess að hagspár gangi ekki eftir og verðmætasköpun sé nær engin standi þjóðin frammi fyrir hærri verðbólgu.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók málið einnig upp og sagði fréttir af hagvexti vekja upp spurningar um á þær forsendur sem eru á bak við spár. Meðal annars geri þær oftar en ekki ráð fyrir stærri fjárfestingum á borð við stóriðju og orkuvinnslu. Þær fjárfestingar gangi hins vegar aldrei eftir. „Það er einmitt svo að þegar ekkert er að gerast á þessu sviði hefur það veruleg áhrif á hagvöxtinn í landinu,“ sagði Birgir og einnig að athyglisvert að það hefði ekki leitt til þess að aðrir hluta atvinnulífs blómgist.

Hann sagði stundum talað um að það þurfi að velja á milli stóriðju og annarra atvinnugreina. „En aðrar atvinnugreinar hafa ekki náð að keyra upp hagvöxt. Þetta er umhugsunarefni.“

Þá sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, að nota ætti síðustu daga þingsins til að ræða þessi mál. Þetta væru alvarlegar fréttir og þýða að fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar sé í uppnámi. Óhjákvæmilegt sé að taka það til umræðu í þinginu mikilvægt að nýta síðustu daganna til að reyna snúa þessu við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka