Ekki víst að draugaskip sé sokkið

Lyubov Orlova sést hér við höfnina í St. Johns í …
Lyubov Orlova sést hér við höfnina í St. Johns í fyrra. Dan Conlin/Wikimedia Commons

Landhelgisgæslan segir að draugaskipið Lyubov Orlova geti enn verið á reki djúpt suður af Íslandi. Merki bárust frá skipinu á dögunum sem sýndu að neyðarsendirinn er á nokkru reiki, hvort sem hann er enn um borð eða ekki.

Landhelgisgæslunni bárust nýlega fregnir af  draugaskipinu Lyubov Orlova frá írsku strandgæslunni en komið hefur fram í fjölmiðlum að talið er líklegt að skipið hafi sokkið. Samkvæmt írsku strandgæslunni tók neyðarsendir sem tilheyrði skipinu að senda frá sér merki í byrjun síðustu viku en eins og vitað er þá geta sendarnir farið í gang af ýmsum ástæðum, s.s. vegna hnjasks, bleytu, raka, þeir losna frá, fara í sjóinn o.s.frv. 

Þetta kemur fram í frétt Landhelgisgæslunnar.

Svo virðist sem neyðarsendirinn hafi farið í gang á stað sem er um 700 sjómílur austnorðaustur af Nýfundnalandi, 500 sjómílur suðaustur af Hvarfi á Grænlandi og um 900 sjómílur vestur af Írlandi. Meira vita menn ekki. Merki bárust frá neyðarsendinum í tvo sólarhringa og töluvert rek var á honum.  Það er ekki vitað hvort hann var þá um borð í skipinu eða í sjónum þannig að það er enn óráðið hvar skipið gæti verið eða hvort það er ofansjávar.

Engin leit hefur farið fram að skipinu.  Hitt er samt ljóst að rekið hefur verið töluvert miðað við hvar sendirinn fór í gang en það er í austnorðaustur-stefnu en ekki norðaustur-stefnu eins og fyrst virtist vera og því hefur það verið í átt að Írlandi en ekki Íslandi, a.m.k. enn sem komið er.

Einnig var starfsmaður Landhelgisgæslunnar í sambandi við kanadísku strandgæsluna á Nýfundnalandi og kom þar fram að Kanadamenn hafa ekki afskrifað skipið sem sokkið.  Landhelgisgæslan hefur það að minnsta kosti í huga í huga að draugaskipið geti enn verið á reki djúpt suður af Íslandi.

Frétt mbl.is: Hefur þú séð Lyubov Orlova?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert