Lokað á ljósmyndara á leikjunum

Ljósmyndurum var bannað að fara inn á völlinn og mynda …
Ljósmyndurum var bannað að fara inn á völlinn og mynda fagnaðarlæti eftir að Valur vann Fram í bikarnum. mbl.is/Árni Sæberg

Ljósmyndurum var gert erfitt fyrir að taka myndir af fagnaðarlátum leikmanna eftir úrslitaleiki dagsins í handbolta. Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, segir ekkert óeðlilegt við þær reglur sem settar hafa verið. Ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins segir að ljósmyndabannið hafi orðið til þess að hann náði engum góðum myndum af fagnaðarlátum sigurvegaranna.

„Það er í gangi bein útsending frá leiknum og ljósmyndarar máttu fara í kringum völlinn eins og þá lysti. Útsendingin er hins vegar áfram í gangi í nokkrar mínútur eftir að leik lýkur, og þá gerðum við kröfu um að ákveðnum reglum yrði fylgt til að tryggja ákveðið vinnuumhverfi. Eftir það mega ljósmyndarar fara inn á völlinn til að taka myndir af verðlaunaafhendingum eins og þeim sýnist,“ segir Einar. „RÚV óskar eftir því að það sé passað upp á þetta meðan á útsendingu stendur og verið er að taka víð skot. Eins eru reglur í Evrópu miklu strangari þegar þetta er annars vegar.“ 

Einar sagði jafnframt að ljósmyndurum hefði verið leyft að stilla sér upp fyrir innan auglýsingaskiltin eftir að kvennaleiknum lauk, meira og minna þar sem þeim hentaði. „Við lítum ekki á þetta sem stórmál og ég held að menn hafi ekki misst af stóru myndatökuaugnablikunum,“ segir Einar. „Skilaboðin um hvernig reglunum yrði háttað komust kannski ekki nógu vel til skila til ljósmyndara. Það er mjög mikil umgjörð um leikina með ljósaskiltum og öllu tilheyrandi og erum að reyna að gera þetta mjög vel. Jafnframt báðum við menn um að hlaupa ekki inn á völlinn á sömu sekúndu og leikurinn var búinn.“

Stoppaðir á leið inn á völlinn

Árni Sæberg, ljósmyndari á mbl.is og Morgunblaðinu, sagði að erfitt hefði verið að vinna eftir þeim reglum sem nú virtust gilda. 

„RÚV er með einkarétt á að senda út frá þessum leikjum. Engar athugasemdir voru gerðar þegar við tókum myndir af leiknum meðan á honum stóð. Þegar leikurinn var búinn og við ætluðum inn á völlinn til að ná myndum þá vorum við bara stoppaðir. RÚV fannst við líta svo illa út inni á vellinum á þeirra myndum þannig að við vorum bara dregnir út. Við fengum enga tilkynningu um að þessu yrði háttað svona, þannig að þetta kom okkur algjörlega að óvörum. Afleiðingar þessa eru svo þær að við náðum engum almennilegum myndum,“ segir Árni. „Við þurftum hér um bil að biðja menn að leika fagnaðarlætin aftur af því við náðum engum myndum nema af bakhlutanum á einhverjum áhorfendum,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert