Víkingaklúbburinn markaði þáttaskil í skáksögunni þegar klúbburinn varð Íslandsmeistari skákfélaga um liðna helgi. Klúbburinn varð til í kringum svonefnda víkingaskák en 2007 var ákveðið að taka jafnframt þátt í Íslandsmóti skákfélaga og byrjaði félagið í 4. deild, varð þar sigurvegari 2010 og síðan hefur leiðin legið beint upp á við.
Fyrir um áratug fór Hrókurinn beinustu leið úr 4. deild upp í þá fyrstu og varð Íslandsmeistari. Nú endurtók Víkingaklúbburinn afrekið.
Í liði nýkrýndra Íslandsmeistara eru þekktir erlendir skákmenn, sem voru með á Reykjavíkurskákmótinu á dögunum. Meistarinn Pavel Eljanov, Bartosz Socko, Grzegorz Gajewski og Marcin Dzibua auk íslenskra manna á borð við Hannes Hlífar Stefánsson, Stefán Kristjánsson, Björn Þorfinnsson, Magnús Örn Úlfarsson og Davíð Kjartansson.
Gunnar Freyr Rúnarsson, formaður Víkingaklúbbsins, segir að 2002 hafi hópur manna byrjað að tefla víkingaskák heima hjá Magnúsi Ólafssyni, höfundi víkingaskákarinnar. Víkingaskák hafi áður verið tefld í öðrum hópum, meðal annars á Ísafirði. „Magnús Ólafsson féll frá 2007, hann arfleiddi félagið að eigum sínum, meðal annars íbúð sem er leigð út, og stofnaður var sjóður í kringum víkingaskákina,“ segir Gunnar Freyr. „Hefðbundna skákin var hliðarverkefni og við vorum að dúlla í neðstu deild til að byrja með en jafnt og þétt styrktist hópurinn og þegar við fórum upp í 1. deild fyrir ári nutum við aðstoðar sjóðsins. Hins vegar er hugmyndin að félagið standið undir sér sjálft án aðkomu sjóðsins.“
Að sögn Gunnars Freys var og er hugmyndin með þátttöku í hefðbundum skákmótum að kynna víkingaskákina, bæði heima og erlendis. „Tilgangurinn með keppni á Íslandsmótinu er að gera okkur sýnilega í heimi skákarinnar, draga menn að víkingaskákborðinu og vekja athygli á víkingaskákinni.“
Um 40 skákmenn eru skráðir félagar í Víkingaklúbbnum (vikingaklubburinn.blogspot.com). Síðan í fyrra hefur félagið verið í samstarfi við Knattspyrnufélagið Víking í Reykjavík og þaðan kemur helsti styrkurinn, en félagið er með æfingar fyrir félagsmenn og börn í Víkinni og hefur fengið klukkur og töfl hjá Víkingum.
Gunnar Freyr segir að tilgangurinn helgi meðalið. Þrjú víkingaskákmót séu haldin árlega og þar af Íslandsmót í nóvember. „Nú vita allir íslenskir skákmenn af okkur, margir hafa prófað að tefla víkingaskák og vonandi verða stofnaðar víkingaskákdeildir í öðrum félögum.“