Umsókn um ríkisborgararétt er háð fjölda skilyrða sem umsækjandi þarf að uppfylla. Ef viðkomandi uppfyllir ekki öll skilyrði getur innanríkisráðuneytið ekki samþykkt umsóknina. Hún er þá send áfram til Alþingis sem hefur heimild til að víkja frá skilyrðunum með lagafrumvarpi. Í tilviki Mary Luz, flóttakonu frá Kólumbíu, þótti umsókn hennar um ríkisborgararétt ekki standast lagareglur og var henni því synjað og málinu vísað til Alþingis.
Þetta segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Fjallað var um mál Mary Luz í fréttum RÚV í gærkvöldi. Þar kom fram að hún hefði engar skýringar fengið á því að umsókninni hefði verið hafnað. Hún sagði ennfremur að sex aðrar flóttakonur, sem komu hingað til lands á sama tíma og hún, hefðu allar fengið ríkisborgararétt.
„Fyrirkomulagið er þannig að innanríkisráðuneytið veitir ríkisborgararétt samkvæmt skýrt afmörkuðum lögum sem Alþingi setur,“ segir Ögmundur. „Ráðuneytið veitir því réttinn í umboði Alþingis.“
Alþingi getur hins vegar sjálft tekið ýmis mál sem flokkast sem álitamál og veitt ríkisborgararétt telji það ástæðu til.
„Í því tilviki sem hér um ræðir var málið tekið til umfjöllunar í innanríkisráðuneytinu og umsóknin þótti ekki standast þær lagareglur sem um slíkt gilda og því var málinu vísað til Alþingis,“ segir Ögmundur. „Það var gert í byrjun desember og viðkomandi einstaklingi gerð grein fyrir að svo hefði verið.“
Lagafrumvarp um ríkisborgararétt var lagt fram á Alþingi í febrúar. Nafn Mary Luz er ekki í því frumvarpi. Samkvæmt heimildum mbl.is er ástæðan sú að umsókn hennar barst ekki í tæka tíð til allsherjarnefndar.
Mary Luz er enn með dvalarleyfi og búsetuleyfi á Íslandi og þarf því ekki að fara frá landinu vegna þessarar synjunar.