„Er með krónískan aulahroll yfir því hve ummæli mín við atkvæðagreiðsluna komu asnalega út,“ skrifar Birgitta Jónsdóttir alþingismaður á Facebook-síðu sína í dag, en Birgitta sagði þegar hún greiddi atkvæði um tillögu um vantraust á ríkisstjórnina að hún styddi vantraust, en vonaði að ríkisstjórnin félli ekki.
„Það sem ég vildi reyna koma frá mér er það að mér finnst ekki tilefni til að treysta neinum inni á þingi til að koma stjórnarskránni í höfn. Finnst hræðilega erfitt að vera í þeirri stöðu að vera í rússneskri rúllettu með svona mikilvægt mál. Ég vona að ríkisstjórnin þori að standa í lappirnar og noti 71. greinina. En umræðurnar í dag gáfu mér ekkert tilefni til bjartsýni en vil heldur ekki vera þátttakandi í einhverjum ömurlegum pólitískum leik með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Þannig að ég myndi vilja að ríkisstjórnin héldi velli til að klára stjórnarskránna en ég treysti þeim ekki til þess miðað við það sem fram kom í dag. Þannig að því sé haldið til haga þá styð ég vantraustið með blendnum tilfinningum því með því að gera það og hún hefði verið samþykkt þá hefðum við endanlega lokað fyrir möguleikann á að þingið virði þjóðaratkvæðagreiðsluna á sama tíma og ekkert hefur komið fram í dag að það verði gerður nokkur skapaður hlutur til þess,“ segir Birgitta á Facebook-síðu sinni.