Ekki eina „marmaramálið“

Fáni Tyrklands.
Fáni Tyrklands.

Atvik á borð við það sem gerðist í Tyrklandi á föstudaginn, þegar íslenskur karlmaður var handtekinn og færður í varðhald vegna þess að hann hugðist taka með sér marmarastein úr landi, virðast nokkuð tíð, en við lauslega leit á netinu má finna nokkur hliðstæð dæmi.

Eftir því sem næst verður komist selur engin íslensk ferðaskrifstofa pakkaferðir til Tyrklands, en norska ferðaskrifstofan Oska-Travel selur ferðir héðan til tyrknesku rívierunnar. Íslendingurinn, Davíð Örn Bjarnason, var á vegum þýsku ferðaskrifstofunnar Tom Travel.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Oska-Travel hér á landi hefur fyrirtækið selt Norðmönnum Tyrklandsferðir um árabil. Ekki er tekið sérstaklega fram við þá sem þar kaupa ferðir til Tyrklands að ekki megi taka steina úr landi, enda hafi enginn sem ferðast á vegum þeirra lent í viðlíka aðstæðum.

„Þetta er ekki eitthvað sem við teljum okkur þurfa að taka sérstaklega fram,“ segir talsmaður Oska-Travel.

Í ferðaskilmálum fyrirtækisins segir að ferðamanni beri skylda til að framfylgja reglugerðum yfirvalda í ferðalandinu og í skilmálum íslenskra ferðaskrifstofa er almennt kveðið á um að farþegi sé skuldbundinn að hlíta lögum og reglum opinberra aðila í þeim löndum sem hann ferðast um.

Nokkrir hafa lent í svipuðum aðstæðum og Davíð

Við lauslega leit á netinu finnast nokkrar fréttir af ferðamönnum sem hafa lent í viðlíka aðstæðum og Davíð. Til dæmis þurfti fjögurra manna kínversk fjölskylda að verja sex viðbótardögum í Antalaya í Tyrklandi í fyrra eftir að þau hugðust fara með marmarastein úr landi. Steininn höfðu þau keypt á markaði. Þá var ungur Spánverji handtekinn á flugvellinum í Antalya í Tyrklandi í fyrrasumar eftir að tveir marmarasteinar fundust í farangri hans.

Sömu sögu er að segja um sænskan diplómata sem hugðist fara með lítinn marmarastein úr landi í fyrravor. Þá var svissneskur lögreglumaður handtekinn síðasta sumar þegar steinn fannst í tösku hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert