Ríkisstjórnin gengur í berhögg við það grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni, að mati Þórs Saari sem mælti fyrir tillögu um vantraust á ríkisstjórnina á Alþingi nú fyrir stundu. Jóhanna Sigurðardóttir sagði Þór velja heimskulegustu leið sem hægt væri að hugsa sér í núverandi stöðu.
Yfir 30 þingmenn eru á mælendaskrá í umræðu um vantraust á ríkisstjórnina sem hófst á 11. tímanum í morgun en kosið verður um tillöguna eftir hádegi í dag.
Hent í ruslið og sett í tætarann
Þór Saari, sem leggur vantrauststillöguna fram, sagði að lýðræðisumbætur sem lofað hefði verið í aðdraganda kosninga hefðu enn ekki litið dagsins ljós. Hann sagði vinnuna við gerð stjórnarskrárinnar einstaka á heimsvísu og Íslendingar mættu vera stoltir af henni, en niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði nú verið hent í ruslið.
Með þessu er ríkisstjórnin að taka afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslna í held sinni í framtíðinni, sagði Þór. Gengið væri gegn vilja þjóðarinnar og rannsóknarskýrsla Alþingis „sett í tætarann“ með gjörningi Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar, sem leggja til að breytingarákvæði stjórnarskrár verði breytt á þessu þingi og málinu haldið áfram á því næsta.
Þór sagðist velta því fyrir sér hvaða umboð nýir formenn þessara þriggja flokka hefðu til þess að stöðva stjórnarskrármálið, þar sem ekki hefði verið talað orð um það á landsfundum flokkanna. Mátti þá greina frammíköll í þingsal þar sem Þór var spurður hvaða umboð hann hefði sjálfur.
Feigðarflan sem Þór ber ábyrgð á
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var fyrst á mælendaskrá á eftir Þór Saari og sagði vantrauststillögu hans valda sér bæði undrun og vonbrigðum. Sagði hún það sérkennilegt að þingmaðurinn veldi að leggja til atlögu við ríkisstjórnarmeirihlutann sem hefði barist hvað harðast fyrir nýrri stjórnarskrá.
„Enginn ríkisstjórnarmeirihluti í lýðveldissögunni hefur verið jafneinbeittur í vilja sínum til að breyta stjórnarskránni og þessi,“ sagði Jóhanna. Umræðan um stjórnarskrármálið hefur tekið einar 150 klukkustundir á Alþingi og sagðist Jóhanna efast um að nokkurt mál hefði frá upphafi verið jafnmikið rætt á Alþingi. Það væri ekki stjórnarmeirihlutinn sem stæði í vegi fyrir framgangi þess, heldur Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem Þór vildi nú færa völdin í hendur.
„Háttvirtur þingmaður velur í raun heimskulegustu leið sem hægt er að hugsa sér í núverandi stöðu,“ sagði Jóhanna, með því að kalla eftir bandalagi við þá sem helst hefðu barist gegn nýrri stjórnarskrá, með málþófi. Sagði Jóhanna það vísustu leiðina til að ná engum árangri í stjórnarskrármálinu.
„Vantrauststillaga gæti falið í sér að nýr meirihluti myndaðist á Alþingi,“ sagði Jóhanna og bætti því við að það væri grátbroslegt að Þór Saari teldi meiri líkur á framgangi málsins í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. „Á því feigðarflani myndi háttsettur þingmaður Þór Saari bera mesta ábyrgð,“ sagði forsætisráðherra.
Hún talaði jafnframt um árangur ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu og sagði að á fjórum árum hefði Ísland snúið vörn í sókn, hagvöxtur hefði undanfarin tvö ár verið meiri en í flestum löndum OECD, atvinnuleysi með því minnsta sem mældist og kaupmáttur hefði vaxið jafnt og þétt.