Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók nú síðdegis fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Húsi íslenskra fræða.
Hús íslenskra fræða mun rísa við Arngrímsgötu 5. Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs, Arngrímsgötu til vesturs og Þjóðarbókhlöðu til norðurs, að því er segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.
Samtals nemur áætluð fjárþörf verksins á árunum 2013-2015 3,4 milljörðum kr.
„Framkvæmdin er hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem ákveðin var í maí 2012. Í byggingunni verður fjölbreytt starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verða ýmis sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslensku skinnhandritunum, kennslu og fleira. Húsið verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta þess, heildarflatarmál þess er tæpir 6.500 m2,“ segir í tilkynningunni.
„Efnt var til opinnar samkeppni á vormánuðum 2008 um hönnun hússins og fyrstu verðlaun hlutu Hornsteinar arkitektar en tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. Að hönnunarsamkeppni lokinni var gengið til samninga við hönnunarteymið um heildarhönnun byggingarinnar. Gert er ráð fyrir að heildarframkvæmdin taki rúm þrjú ár, jarðvinnuframkvæmdir hefjist í þessum mánuði og ljúki í lok maí 2013 og í beinu framhaldi taki annar verktaki við heildarverkinu. Áætlað er að framkvæmdin kosti rúma 3,4 milljarða króna og skiptist kostnaðurinn milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands í hlutföllum 70/30%,“ segir ennfremur.