Leikrit sem fólk vill ekki sjá

Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag.
Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vantrauststillaga Þórs Saari á hendur ríkisstjórninni er markviss tilraun til að drepa stjórnarskrármálið endanlega, að mati Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og formanns Vinstri grænna.

Katrín sagði að í sínum huga sé sú stjórnarskrá sem nú er til umræðu ekki endanleg skipan mála eða endanlegur sannleikur, en hún telji hana hins vegar góðan grunn. „Ég átta mig líka á því að lýðræðisumræða tekur tíma,“ sagði Katrín og gagnrýndi þingið fyrir að eyða of miklum tíma í dægurþras sem væri ekki sú lýðræðisumræða sem hún eigi við.

„Raunverulega umræðu er nauðsynlegt að eiga um nýja stjórnarskrá,“ sagði Katrín. Hún sagði vantrauststillögu Þórs Saari hluta af leiknum, „af því leikriti sem íslensk stjórnmál eru orðin“ og sagðist hún telja að kjósendur hafi hvorki áhuga né skilning á þessu leikriti. 

„Ég tel vantrauststillögu sjö vikum fyrir kosningar og þinglok ekki vera það sem fólk vill sjá frá Alþingi Íslendinga,“ sagði Katrín.

Vísasta leiðin í ruslakistuna

Guðmundur Steingrímsson, annar tveggja formanna Bjartrar framtíðar, segist ekki leggjast gegn því að Alþingi verði þröngvað til atkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið, en hann mæli ekki með því.

Hann ítrekaði það sem hann hefur áður bent á að jafnvel þótt stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykkt í heild fyrir lok þessa þing taki það ekki gildi sem lög fyrr en næsta þing samþykki það. Ekki sé skynsamlegt að þröngva málinu til atkvæðagreiðslu nú.

„Það gerir það að verkum að málið lokast, það koma kosningar og næsta þing verður að segja af eða á, því verður stillt upp við vegg, já eða nei, viljið þið allan pakkann eða ekkert. Við höfum verið að segja að þessi leið kunni að vera vísasta leiðin til að fara með allar heildar endurskoðunina rakleiðis í ruslakistuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert