Ósammála Þór en styðja vantraust

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sóru báðir af sér að vera sammála Þór Saari þótt þeir styðji vantrauststillögu hans gegn ríkisstjórninni. Sögðu þeir málið ekki snúast um stjórnarskrána eina heldur að ríkisstjórnin sé rúin trausti.

Umræður standa nú yfir á Alþingi um vantrauststillögu Þórs Saari á hendur ríkisstjórninni, en hann lagði tillöguna fram í síðustu viku vegna óánægju með að frumvarp að nýrri stjórnarskrá yrði ekki að lögum á þessu kjörtímabili. Samkvæmt tillögunni á að rjúfa þing og efna til almennra kosninga en fram að kjördegi víki ríkisstjórnin og sett verði starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.

Ekki valkostur að styðja ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í ræðu sinni að hann styðji tillöguna, ekki vegna þess að hann sé sammála Þór Saari í stjórnarskrármálinu, heldur af því að það sé ekki valkostur að styðja þessa ríkisstjórn.

„Ég og flutningsmaður tillögunnar erum jafn ósammála í [stjórnarskrármálinu] og nokkrir tveir menn geta verið um eitt mál,“ sagði Bjarni en bætti því þó við að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki á móti því að gera breytingar á stjórnarskrá. Þessi yfirlýsing hans kom af stað kurri í þingsal og sagði Bjarni þá þessa afstöðu flokksins ekki enn hafa komist til skila.

„Ég bið þá forláts sem hér eru með frammíköll og sakna þess að ég skuli ekki hafa lagt oftar vantraust fram á ríkisstjórnina,“ sagði Bjarni.

Eingöngu að taka afstöðu til trausts

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins vildi heldur ekki beygja sig undir forsendur Þórs Saari fyrir vantraustinu, þótt hann styðji tillöguna. Sagði hann atkvæðagreiðsluna tvískipta og að í fyrri hlutannum séu þingmenn eingöngu að taka afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin hafi unnið sér það inn að lýst sé trausti á hana. 

„Það er mikilvægt að þingið noti tækifærið nú í lok kjörtímabilsins til að lýsa því yfir að framganga ríkisstjórnarinnar sé ekki ásættanleg,“ sagði Sigmundur. Talaði hann m.a. um Icesave málið og kvótafrumvarpið og sagði að þakka mætti stjórnarandstöðunni fyrir að koma í veg fyrir að þau hafi komist í gegn.

Sigmundur Davíð sagði vandamálið það að ríkisstjórnin hafi litið á efnahagsvanda þjóðarinnar fyrst og fremst sem pólitískt tækifæri til að koma á framfæri hugsjónum sínum í hagstjórn. Fyrir vikið hafi dýrmætum tækifærum verið kastað á glæ.

„Ætlar Alþingi að lýsa yfir trausti á þessari ríkisstjórn og þar með þessi vinnubrögð, eða ætla menn að lýsa því yfir í aðdraganda kosninga að vinnubrögð eins og við höfum horft upp á síðastliðinn fjögur ár séu óásættanleg?“

Forsætisráðherra aftursætisbílstjóri

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði sömuleiðis tillögu Þórs setta fram á kolröngum forsendum. Sagði hann þá hugmynd að setja á starfsstjórn allra flokka fram að kosningum óraunhæfa.

Einar sagði Jóhönnu Sigurðardóttur beinlínis vega að nýkjörnum formönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna með málflutningi sínum og reyna að gera tortryggilega tilraun þeirra til að koma stjórnarskrármálinu upp úr þeim hjólförum sem það sé fast í.

„Forsætisráðherra er aftursætisbílstjóri í þessum leiðangri,“ sagði Einar. Þrátt fyrir að tillaga Þórs Saari sé vanbúin að mati Einars sagði hann þó þingmenn hljóta að lýsa yfir vantrausti sínu á ríkisstjórninni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert