Hart er deilt um störf ríkisstjórninnar og stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi og var mikið um frammíköll þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir svaraði Össuri Skarphéðinssyni og yfirlýsingum hans um fylgispekt Sjálfstæðismanna við Þór Saari. Sagði Ragnheiður það stundum fara hæstvirtum utanríkisráðherra betur að þegja.
Tilefni vantrauststillögu Þórs Saari eru meðfarir ríkisstjórnarinnar á stjórnarskrárfrumvarpinu, sem lagt hefur verið til að verði geymt til næsta kjörtímabils og aðeins gerðar breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.
Nauðsynlegt að skoða breytingarnar betur
Sjálf sagðist Ragnheiður þeirrar skoðunar að ekki sé tími til að ljúka frumvarpinu eins og það liggur fyrir nú. Ragnheiður sagði að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarpið hafi verið spurt hvort það eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá.
„Í mínum málskilningi þýðir það ekki það sama og að það eigi að samþykkja allt sem þar stendur,“ sagði Ragnheiður og lýsti þeirri skoðun sinni að halda verði áfram umfjöllun um það á næsta þingi. Hún sagðist ósammála því ferli sem stjórnarskráin var dregin í gegnum og að ýmis ákvæði frumvarpsins verði að skoða betur.
Nefndi hún ákvæði um persónukjör sem dæmi, því þótt hugmyndin sé áhugaverð hafi sést í kosningu til stjórnlagaráðs að þekkt andlit hafi þar náð kjöri á kostnað fólks af landsbyggðinni sem ekki hafi fengið hljómgrunn. „Þess vegna þurfum við að velta fyrir okkur hvort og þá hvernig við tökum upp persónukjör. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvað það þýðir að jafna vægi atkvæða.“
Sjálf sagðist Ragnheiður hlynnt því að auðlindir séu í eigu og umsjá ríkis, það væri rangt sem haldið væri fram að sjálfstæðismenn standi gegn því. Hófust þá frammíköll Össurar Skarphéðinssonar sem stóðu ræðuna á enda.
Þór Saari enginn leiðtogi
Ragnheiður sagðist ekkert traust bera til ríkisstjórnarinnar og því sé hún tilbúin að greiða atkvæði með vantrausti hvenær sem er þó ekki væri nema bara vegna Landsdómsmálsins.
Össur Skarphéðinsson rifjaði sjálfur upp Landsdómsmálið fyrr í umræðunni og orð sem Þór Saari lét falla um Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkinn þegar ákæran var afgreidd á Alþingi. Ragnheiður sagði á móti framgöngu Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu til ævarandi skammar og þegar Össur hrópaði fram í úr þingsal svaraði hún fullum hálsi.
„Mér er slétt sama þótt hæstvirtur utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gjammi hér fram í og segist ekki eiga hlut í því máli. Það er ekkert hæft í þessu, hæstvirtur utanríkisráðherra. Stundum færi þér betur að þegja.“
Myndi lýsa vantrausti á Þór Saari
Ragnheiður sagði það sömuleiðis fjarri sér að gera Þór Saari að leiðtoga lífs síns líkt og Össur ýjaði að í ræðu sinni. „Þvílíkt bull“ sagði Ragnheiður og bætti því við að ekki þyrfti Þór Saari til þess að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.
Orðaskiptum Össurar og Ragnheiðar lauk með þessum hætti:
Ragnheiður: „Ég styð vantrautstillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.“
Össur: „Og Þór Saari!“
Ragnheiður. „Ef ég gæti, hæstvirtur utanríkisráðherra, þá myndi ég styðja vantrauststillögu á Þór Saari.“