Vantrauststillaga Þórs Saari og umræður um hana eru sennilega það sérkennilegasta sem sést hefur á Alþingi, að mati Steingríms J. Sigfússonar. Hann kallaði Þór Saari nýjan yfirformann Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Steingrímur sagði tillögu Þórs orðna enn fáránlegri nú en þegar hún kom fyrst fram. Búið sé að ákveða kjördag og utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin. „Þetta er stórbrotið,“ sagði Steingrímur og spurði hvers vegna ekki væri flutt vantraust í þingnefndina sem fer með stjórnarskrármálið, eða á Alþingi sjálft.
Tekist á um einkaeignarréttinn
„En auðvitað ætti, ef það væri tæknilega hægt, að flytja hér vantraust á Sjálfstæðisflokkinn [...] því það er hann sem kemur í veg fyrir að við komumst lönd né strönd með stjórnarskrárbreytingarnar.“
Steingrímur sagði þá sem setið hafa á þingi um nokkurra ára skeið þekkja það af reynslu að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem komi alltaf upp úr kafinu og stöðvi breytingar á stjórnarskránni, því henni eigi ekki að breyta nema það henti þeim. Hann sagði málið í reynd snúast um aldagömul átök í stjórnmálum, nefnilega einkaeignarréttinn.
Steingrímur sagði þá tillögu dásamlegasta að mynda eigi ríkisstjórn allra flokka strax í kjölfarið, hvað sem tautar og raular. Sagði hann Þór Saari sjálfan hljóta að hafa augastað á einhverju ráðuneyti þá fáu daga sem eftir eru af kjörtímabilinu. Þá væri það stórkostlegt að Þór Saari væri hér í liði með Sjálfstæðisflokknum.
Konsertmeistararnir Davíð og Þór
„Stjórnarandstaðan og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn vilja ekki þetta mál sem er tilefni vantraustsins, engu að síður hengja þeir sig hér aftan í forystu Þórs Saari, gera hann að leiðtoga sínum, hann er orðinn nýi yfirformaðurinn,“ sagði Steingrímur og óskaði Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hamingju með nýja leiðtogann.
„Hér er komið fram nýtt þríeyki, Þór Saari yfirformaður og varaformennirnir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð.“ Stjórnarandstæðingar komi svo hver af öðrum fram og segist alls ekki vera að greiða atkvæði um tillögu Þórs Saari heldur í reynd eitthvað allt annað.
Steingrímur sagði Sjálfstæðismenn og í seinni tíð Framsóknarmenn búa í heimatilbúnum veruleika „undir stjórn konsertmeistara hrunsins, ritstjóra Morgunblaðsins Davíðs Oddssonar [...] Mikill er máttur Davíðs Oddssonar“.
Hann sagði undarlegt að horfa á meðvirkni þingmanna Sjálfstæðisflokksin sem hlaupi til eins og litlir drengir undir stjórn Davíðs. „Nema nú er kominn nýr konsertmeistari, Þór Saari, og verður gaman að sjá hvernig verður undir tvíeykisstjórn Davíðs Oddssonar og Þórs Saari.
Umræðum um vantrauststillögu Þórs Saari er nú lokið og atkvæðagreiðsla við það að hefjast.