„Þetta er auðvitað bara leikrit“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Morgunblaðið/Ómar

Þing­menn deildu um það á Alþingi í dag hverj­um það væri að kenna að ekki gengi hraðar fyr­ir sig að af­greiða hin ýmsu mál sem lægju fyr­ir þing­inu. Árni Þór Sig­urðsson, þingmaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, hóf umræðuna og gagn­rýndi þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins harðlega fyr­ir að mis­nota þingsköp Alþing­is og tefja fyr­ir þing­mál­um með því að fara í sí­fellu upp í andsvör við hvora aðra án þess að til­gang­ur væri með því og það jafn­vel í mál­um sem til­tölu­lega góð sátt væri um.

„Þetta er auðvitað bara leik­rit sem öll þjóðin átt­ar sig á og sér. Þetta er leik­rit sem öll þjóðin átt­ar sig á og sér og verður til þess að brýn mál kom­ast ekki á dag­skrá. Verk­efni okk­ar hér er að gera þjóðinni gagn en ekki að þvæl­ast fyr­ir og það er það sem við þurf­um að láta ger­ast og virðulegi for­seti, með þessu áfram­haldi er al­ger­lega ljóst að það verður ekki unnt að standa við áform starfs­áætl­un­ar að ljúka hér störf­um 15. mars,“ sagði Árni enn­frem­ur.

Brýn mál vegna heim­il­anna ekki á dag­skrá

Sig­fús Karls­son, varaþingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, kom einnig inn á þessa umræðu og sagðist hafa hlakkað til þess að taka þátt í störf­um þings­ins í þess­ari viku og gert ráð fyr­ir að í þeim yrði lögð áhersla á mál sem tækju á brýn­ustu hags­muna­mál­um heim­il­anna og fyr­ir­tækj­anna í land­inu. Hann hafi þó orðið fyr­ir von­brigðum með dag­skrá þings­ins í gær og í dag enda væru þar eng­in mál í raun sem tækju á þeim mál­um. Spurði hann hvað þingið ætlaði að gera á síðustu dög­um þings­ins í þess­um efn­um.

Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, þingmaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, og Ólína Þor­varðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar tóku í sama streng og Árni og gagn­rýndu þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins harðlega fyr­ir að stöðva eða tefja fyr­ir brýn­um mál í þing­inu líkt og um stjórn fisk­veiða og Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna. Löng umræða færi fram um brýn mál en minni­hátt­ar mál færu í gegn án umræðu.

„Stjórn­ar­andstaðan mun ekki þvæl­ast fyr­ir þeim“

„Þessi rík­is­stjórn ætti að byrja á því núna þegar fimm dag­ar eru eft­ir, eða fjór­ir dag­ar eru eft­ir af þing­inu að fara yfir list­ann, skoða hvaða mál eru brýn, aðkallandi og áríðandi fyr­ir heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu. Tök­um þau mál, stjórn­ar­andstaðan mun ekki þvæl­ast fyr­ir þeim, tök­um þau mál og klár­um þau,“ sagði Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þá sagði hún auk­mun­ar­vert að rík­is­stjórn­in, sem gumaði sig af því að njóta meiri­hlutastuðnings í þing­inu eft­ir að van­traust á hana var fellt í þing­inu í gær, kenndi stjórn­ar­and­stöðunni um að hún kæm­ist ekki með mál í gegn­um þingið.

Ill­ugi Gunn­ars­son, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, tók und­ir með Ragn­heiði og benti á að fjöl­mörg mál hefðu verið að koma inn í þingið til fyrstu umræðu und­an­farna daga sem stjórn­ar­meiri­hlut­inn hefði lagt mikla áherslu á að yrðu af­greidd og komið til nefnda. Fyr­ir væru hjá nefnd­um þings­ins mik­ill fjöldi mála sem ætti eft­ir að af­greiða til annarr­ar umræðu og þriðju umræðu. Útil­okað væri að klára öll þessi mál fyr­ir þinglok. „Svo þarf maður, virðulegi for­seti, að sitja hér í þingsaln­um og hlusta á stjórn­ar­liða tala um það að það sé verið að koma í veg fyr­ir það að mál klárist hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert