Þingmenn deildu um það á Alþingi í dag hverjum það væri að kenna að ekki gengi hraðar fyrir sig að afgreiða hin ýmsu mál sem lægju fyrir þinginu. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hóf umræðuna og gagnrýndi þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins harðlega fyrir að misnota þingsköp Alþingis og tefja fyrir þingmálum með því að fara í sífellu upp í andsvör við hvora aðra án þess að tilgangur væri með því og það jafnvel í málum sem tiltölulega góð sátt væri um.
„Þetta er auðvitað bara leikrit sem öll þjóðin áttar sig á og sér. Þetta er leikrit sem öll þjóðin áttar sig á og sér og verður til þess að brýn mál komast ekki á dagskrá. Verkefni okkar hér er að gera þjóðinni gagn en ekki að þvælast fyrir og það er það sem við þurfum að láta gerast og virðulegi forseti, með þessu áframhaldi er algerlega ljóst að það verður ekki unnt að standa við áform starfsáætlunar að ljúka hér störfum 15. mars,“ sagði Árni ennfremur.
Brýn mál vegna heimilanna ekki á dagskrá
Sigfús Karlsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, kom einnig inn á þessa umræðu og sagðist hafa hlakkað til þess að taka þátt í störfum þingsins í þessari viku og gert ráð fyrir að í þeim yrði lögð áhersla á mál sem tækju á brýnustu hagsmunamálum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Hann hafi þó orðið fyrir vonbrigðum með dagskrá þingsins í gær og í dag enda væru þar engin mál í raun sem tækju á þeim málum. Spurði hann hvað þingið ætlaði að gera á síðustu dögum þingsins í þessum efnum.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar tóku í sama streng og Árni og gagnrýndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins harðlega fyrir að stöðva eða tefja fyrir brýnum mál í þinginu líkt og um stjórn fiskveiða og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Löng umræða færi fram um brýn mál en minniháttar mál færu í gegn án umræðu.
„Stjórnarandstaðan mun ekki þvælast fyrir þeim“
„Þessi ríkisstjórn ætti að byrja á því núna þegar fimm dagar eru eftir, eða fjórir dagar eru eftir af þinginu að fara yfir listann, skoða hvaða mál eru brýn, aðkallandi og áríðandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Tökum þau mál, stjórnarandstaðan mun ekki þvælast fyrir þeim, tökum þau mál og klárum þau,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þá sagði hún aukmunarvert að ríkisstjórnin, sem gumaði sig af því að njóta meirihlutastuðnings í þinginu eftir að vantraust á hana var fellt í þinginu í gær, kenndi stjórnarandstöðunni um að hún kæmist ekki með mál í gegnum þingið.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Ragnheiði og benti á að fjölmörg mál hefðu verið að koma inn í þingið til fyrstu umræðu undanfarna daga sem stjórnarmeirihlutinn hefði lagt mikla áherslu á að yrðu afgreidd og komið til nefnda. Fyrir væru hjá nefndum þingsins mikill fjöldi mála sem ætti eftir að afgreiða til annarrar umræðu og þriðju umræðu. Útilokað væri að klára öll þessi mál fyrir þinglok. „Svo þarf maður, virðulegi forseti, að sitja hér í þingsalnum og hlusta á stjórnarliða tala um það að það sé verið að koma í veg fyrir það að mál klárist hér.“