„Vatnasvæðið verulega laskað“

Lagarfljótið hefur til skamms tíma átt sér marga liti sem …
Lagarfljótið hefur til skamms tíma átt sér marga liti sem veðurfar og aðrir umhverfisþættir hafa ráðið mestu um, en eftir því sem Jökla rennur lengur í fljótið verður litur þess grábrúnleitur og eitthvað dekkri. Steinunn Ásmundsdóttir

„Þetta þurfti ekki að koma nein­um á óvart,“ seg­ir Gunn­ar Jóns­son, formaður bæj­ar­ráðs Fljóts­dals­héraðs, um bráðabirgðaniður­stöður Lands­virkj­un­ar um áhrif Kára­hnjúka­virkj­un­ar á líf­ríki Lag­ar­fljóts. Málið verður tekið fyr­ir á fundi bæj­ar­ráðs á morg­un.

Lands­virkj­un hef­ur á að und­an­förnu kynnt skýrsl­ur um land­brot á bökk­um Lag­ar­fljóts og um áhrif Kára­hnjúka­virkj­un­ar á líf­ríkið í fljót­inu. Í Frétta­blaðinu í dag seg­ir að fisk­ur sé að hverfa úr fljót­inu og að líf­ríkið sé nán­ast búið.

Gunn­ar seg­ist ekki vilja tjá sig mikið um málið þar sem bæj­ar­ráð eigi eft­ir að taka það fyr­ir. Hann seg­ir þetta hins veg­ar ekki hafa átt að koma nein­um á óvart. „Þetta var alltaf vitað mál, það er gíf­ur­leg rösk­un að fá allt þetta vatn,“ seg­ir Gunn­ar en vatns­magn úr Hálslóni í Lag­ar­fljót er tölu­vert meira en reiknilíkön gerðu ráð fyr­ir við hönn­un Kára­hnjúka­stíflu.

Sjálf­ur seg­ist Gunn­ar telja að áhrif­in séu óaft­ur­kræf, hugs­an­lega sé þó hægt að sleppa seiðum í ár þó óvíst sé um ár­ang­ur þess. „En það breyt­ir því ekki að Lag­ar­fljótið sem slíkt, vatna­svæðið, er veru­lega laskað.“

„Lag­ar­fljótið er dautt“

Einn þeirra sem skrifað hafa mikið um Kára­hnjúka er Andri Snær Magna­son rit­höf­und­ur. Á vefsvæði sínu seg­ir hann að frétt­ir dags­ins komi sér ekki á óvart. „Þá er komið í ljós það sem marg­ir óttuðust. Lag­ar­fljótið er dautt. [...] Það var alltaf talað um að maður þyrfti að hafa farið lengst upp á ör­æfi til að hafa skoðun á virkj­un­inni fyr­ir Alcoa, það var fjarri lagi. Það var nóg að hafa séð Lag­ar­fljótið.“

Hann vís­ar í bók sína, Draumalandið - Sjálfs­hjálp­ar­bók handa hræddri þjóð, sem kom út árið 2006. Í henni seg­ir: „Sá sem hef­ur séð Lag­ar­fljót hef­ur „farið þangað“. Heilli jök­ulá verður bætt í fljótið, dul­grænn lit­ur­inn verður brúnn, vatnið kóln­ar, vatns­borð hækk­ar og ríf­ur bakk­ana. „Lag­ar­fljótið verður grimm­ara,“ sagði mér gam­all maður sem hef­ur búið við Lag­ar­fljótið alla ævi. Kára­hnjúk­ar hvergi nærri og hann hef­ur sjálf­ur aldrei „komið þangað“.“

Lýstu yfir mikl­um áhyggj­um

Á síðasta fundi bæj­ar­stjórn­ar Fljóts­dals­héraðs var rætt um skrán­ingu á land­broti á bökk­um Lag­ar­fljóts og Jök­uls­ár í Fljóts­dal. „Í skýrslu um málið kem­ur fram að tölu­vert og mikið land­brot er á 24% af strand­lengju Lag­ar­fljóts. Í ljósi meira vatns­magns í Lag­ar­fljóti en reiknilíkön gerðu ráð fyr­ir við hönn­un Kára­hnjúka­virkj­un­ar, má ætla að það sé hluti af or­sök­inni,“ seg­ir í fund­ar­gerðinni.

Þá er tekið und­ir með um­hverf­is- og héraðsnefnd og lýst yfir mikl­um áhyggj­um af breyttri grunn­vatns­stöðu Lag­ar­fljóts eft­ir virkj­un. „Ljóst er að hækk­un á grunn­vatns­stöðu við Lag­ar­fljóts­brú við Fella­bæ og við Hól í Hjalt­astaðaþing­há eyk­ur rof á viðkvæm­um ár­bökk­um. Áhrifa af breyttri grunn­vatns­stöðu gæt­ir víða og eru búj­arðir og nátt­úru­m­inja­svæði sem liggja und­ir skemmd­um sér­stakt áhyggju­efni.“

Þá er því beint til Lands­virkj­un­ar að unn­in verði áætl­un um úr­bæt­ur og mót­vægisaðgerðir gegn land­broti á bökk­um Lag­ar­fljóts, sér­stak­lega á þeim stöðum þar sem ástandið er al­var­leg­ast.

Mik­il­vægt að læra af reynsl­unni

Álf­heiður Inga­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, óskaði í morg­un eft­ir fundi hið fyrsta í um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd Alþing­is. Hún fer fram á að Gunn­ar mæti á fund­inn en einnig full­trú­ar Lands­virkj­un­ar og sér­fræðing­ar Nátt­úru­fræðistofn­un­ar og Um­hverf­is­stofn­un­ar.

Í tölvu­bréfi frá Álf­heiði seg­ir hún að mik­il­vægt sé að læra af reynsl­unni af Kára­hnjúka­virkj­un og láta nátt­úr­una njóta vaf­ans. "Ef varúðarregl­an er í heiðri höfð áður en fram­kvæmd­ir eru heim­ilaðar, munu af­leiðing­ar þeirra ekki koma mönn­um á óvart eins og nú virðist vera."

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert