Fulltrúar sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins lögðu í síðustu viku fram fyrirspurn til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem farið er fram á svör við því hvort til standi að beita Íslendinga og Færeyinga viðskiptaþvingunum vegna makríldeilunnar eða hvort hætt hafi verið við þau áform.
Fyrirspurnin er í fjórum liðum og var borin upp af Gabriel Mato Adrover, formanni sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, og Pat the Cope Gallagher, sem sæti á í nefndinni en hann er einnig annar formaður sameiginlegrar þingmannanefndar Evrópuþingsins og Alþingis vegna umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið.
Makríldeilan er rifjuð upp í formála fyrirspurnarinnar út frá sjónarhóli Evrópusambandsins. Íslendingar og Færeyingar hafi einhliða úthlutað sér makrílkvóta sem nemi rúmlega helmingi þess kvóta sem vísindamenn hafi ráðlagt. Þá hafi Færeyingar dregið sig út úr samkomulagi um síldveiðar og gefið í skyn að þeir hyggist auka mjög síldveiðar sínar.
Látið hjá líða að beita viðskiptaþvingunum
Fram kemur að þessi óábyrga hegðun þjóðanna tveggja hafi valdið útgerðarmönnum innan Evrópusambandsins miklum skaða og minnt á að Evrópusambandið hafi sett reglugerð síðastliðið haust til þess að bregðast við slíkum aðstæðum. Til þessa hafi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hins vegar látið hjá líða að beita þeim aðgerðum sem reglugerðin heimili gegn Íslandi og Færeyjum.
Spurt er að því hvenær framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætli að nýta þá heimild sem henni hafi verið veitt af Evrópuþinginu og ráðherraráði sambandsins til þess að grípa til viðskiptaþvingana gegn Íslendingum og Færeyingum.
Enn verið að skoða lagalegar hliðar þvingana?
Ennfremur er spurt að því hvort það sé rétt „að lögfræðiþjónusta framkvæmdastjórnarinnar sé enn að fara yfir skilyrði þess að beita viðskiptaþvingunum gagnvart Íslandi og Færeyjum? Ef það er raunin, getur framkvæmdastjórnin upplýst nákvæmlega hvaða skilyrði eru til skoðunar? Hvenær mun því ferli ljúka?“
Þá er framkvæmdastjórnin innt svara við því til hvaða aðgerða hún hyggst grípa til þess að stöðva „ósjálfbærar og óábyrgar“ makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga verði ákveðið að grípa ekki þegar í stað til viðskiptaþvingana gegn þeim. Að endingu er síðan spurt að því hvernig framkvæmdastjórnin ætli að bregast við ákvörðun Færeyinga um að segja sig frá samkomulagi um síldveiðar og fyrirætlunum þeirra um að taka sér þess í stað einhliða síldarkvóta.
Samkvæmt því sem næst verður komist hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki svarað þessum spurningum sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins.