Aukið ofbeldi á geðdeildum

Páll Matthíasson er framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.
Páll Matthíasson er framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Um 100-120 milljónir króna þarf til að hægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á geðsviði Landspítala, svo unnt sé aðskilja veikustu einstaklingana frá öðrum og auka öryggi. Framkvæmdastjóri geðsviðs segir að samfélagið hafi harðnað, m.a. vegna fíkniefnaneyslu, og fleiri beiti ofbeldi til að komast út af geðdeildum.

Fjórar móttökugeðdeildir eru á Landspítala og stendur til að breyta einni þeirra í s.k. geðgjörgæsludeild, samkvæmt módeli sem gefist hefur vel erlendis. Páll  Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs, segir breytinguna felast í því að veikustu einstaklingarnir fái sérhæfða hjúkrun og meðferð.

Deildin verður öruggari, t.d. búin innanstokksmunum sem ekki er hægt að skaða sig auðveldlega á. Þar verða aðskildir karla- og kvennagangar og starfsfólkið fær sérstaka þjálfun til að geta sinnt veikustu einstaklingunum með öruggum hætti. „Þetta er brýnt mál sem við verðum að fara í , en það  kostar peninga því húsnæðið er barn síns tíma, það er orðið 35 ára gamalt,“ segir Páll.

15 milljónir frá ráðuneytinu

Velferðarráðuneytið samþykkti að láta 15 milljónir króna renna til endurbóta á geðsviði Landspítala, sem er viðurkenning á mikilvægi verkefnisins en dugar ekki. „Ef við ætlum að gera þetta sómasamlega kostar þetta 100-120 milljónir,“ segir Páll. Til að geta opnað deildina með lágmarksbreytingum þarf a.m.k. 40 milljónir og segir Páll að reynt verði að hagræða með öllum leiðum innanhúss til að ná því fram. „Svo munum við vinna í því að fá meira.“

Hátt í þrjú þúsund innlagnir eru á geðdeildir Landspítalans á hverju ári. Páll segir að ástandið hafi smám saman orðið erfiðara ár frá ári. „Fólk leggst ekki inn nema virkilega sé þörf á því og er skemur inni í einu. Þannig að það er veikara fólk sem liggur inni og það gerir meiri kröfur til starfsfólksins og umhverfisins.“

Meira um að sjúklingar beiti ofbeldi

„Það er líka þannig að umhverfið og samfélagið er allt að harðna, það er meira ofbeldi, fólk virðir síður boð og bönn og svo blandast fíkniefnin inn í þetta. Það er meira um að fólk noti ofbeldi og reyni að komast út úr nauðungarvist sama hvað það kostar.“ Páll segir ferlegt að tvímenna þurfi í mörgum herbergjum á geðdeild.

Páll segir mikinn ágóða fyrir alla fólginn í því að koma geðgjörgæsludeild á laggirnar. Þar verði skapaðar öruggari aðstæður fyrir í fyrsta lagi fólk sem er hættulegt öðrum, s.s. vegna sturlunarástands, í öðru lagi fólk sem er hættulegt sjálfu sér, s.s. vegna sjálfsskaðahugsana, og í þriðja lagi fyrir ákveðinn hóp fólks sem Páll segir mikilvægt að fái meðhöndlun í skjóli, til að vernda virðingu þeirra og einkalíf.

Líka bætt þjónusta við þá minna veiku

En ágóðinn er ekki síður mikill fyrir hina, sem ekki eru eins alvarlega veikir. „Við rekum okkur ítrekað á það að fólk er ánægt með þjónustuna sem það fær hér á geðdeildum en kvarta yfir því að það fái ekki næga athygli, þegar athyglin fer öll á þann veikasta á deildinni,“ segir Páll.

„Þegar hinir veikustu eru komnir á aðra deild er hægt að veita þeim minna veiku betri þjónustu líka. Þeir geta þá t.d. frekar fengið ættingja í heimsókn án þess að óttast þurfi um öryggi þeirra.“

Geðheilbrigðismál lengi út undan

Geðheilbrigðismál liðu lengi fyrir fordóma og vanþekkingu í samfélaginu. Aðspurður segir Páll að málaflokkurinn fái nú meiri athygli í fjölmiðlum en þau gerðu áður. „En ég tel klárlega að það þurfi að veita meira fé í þennan málaflokk og þá er ég ekki að tala um eingöngu innan spítalans heldur almennt í samfélaginu.“

Páll nefnir að þótt mikilvægt sé að geðfatlaðir fái góða spítalaþjónustu skipti öflugri þjónusta við þá úti í samfélaginu ekki síður máli, m.a. til að draga úr þörf á innlögnum. Þá þurfi að efla heilsugæsluna til að sinna geðheilbrigðisþjónustu betur.

Mikið hefur verið rætt um ástandið á Landspítalanum undanfarið enda húsnæðið komið til ára sinna og það er víðar en á geðdeildum sem nauðsynlegt viðhald hefur verið vanrækt vegna sparnaðar. Páll bendir á að geðdeildarbyggingin sé reyndar ein af þeim nýrri, sem segi sitt um ástand húsnæðismála á spítalanum.

„Starfsfólk Landspítala er ekki að biðja um endurbætur og endurnýjun húsnæðis að gamni sínu heldur er svo sannarlega brýn þörf á því og við notum ekki orðið brýnt óvarlega.

Geðdeild Landspítalans
Geðdeild Landspítalans mbl.is/ Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert