„Farðu bara lífvarðatitturinn þinn“

Mótmæli í Alþingisgarðinum.
Mótmæli í Alþingisgarðinum. mbl.is/Júlíus

Framganga Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, í Búsáhaldabyltingunni svonefndu hefur verið mönnum hugleikin frá því hún stóð á glerbrúnni á milli Alþingishússins og viðbyggingarinnar, talaði þar í síma og veifaði til mótmælenda. Í nýrri bók um mótmælin er þetta atvik rifjað upp.

Bókin Búsáhaldabyltingin - sjálfsprottin eða skipulögð? kemur í verslanir á morgun. Í henni fer Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur yfir atburðarrásina en hann hefur haft aðgang að áður óbirtum trúnaðargögnum auk þess að ræða við fjölda manns sem tók beinan eða óbeinan þátt í atburðunum.

Meðal þess sem fjallað er um í bókinni er þegar Álfheiður Ingadóttir stóð á glerbrúnni 20. janúar 2009 og veifaði til mótmælenda. „Ítrekaðar beiðnir voru sendar inn í þinghúsið um að þingmenn skyldu forðast að láta sjá sig í gluggum þinghússins þar sem það var talið geta æst upp fólkið sem var utandyra,“ er haft eftir Þorvaldi Sigmarssyni, lögreglumanni.

Engu að síður hafi þingmenn átt erfitt með að fylgja þeim fyrirmælum. „Forvitni virðist þó ekki hafa stjórnað gjörðum allra þingmanna. Vakti framganga Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, þar athygli.“

Virtist hafa skemmtun af því sem var að gerast

Í bókinni er rætt við ekkju Sigurðar Freys Gunnarssonar sem tilheyrði sérsveit ríkislögreglustjóra í um áratug og var einn af lífvörðum Geirs H. Haarde á þessum tíma. Sigurður var á glerbrúnni umræddan dag og greindi eiginkonu sinni frá því sem þar gerðist áður en hann lést í fyrra.

Sigurður sá Álfheiði standa og horfa niður á mótmælendur og lögregluna í Alþingisgarðinum. „Sá hann síðan hvar hún veifaði til einhverra í mannfjöldanum og virtist honum sem hún væri að hvetja fólk, mótmælendur, áfram með handahreyfingum þarna í glerhýsinu. Virtist sem hún hefði skemmtun af því sem var að gerast fyrir utan og talaði hún um það hvar lögreglumenn væru staðsettir og vísaði mótmælendum veginn.“

Eftir þetta gekk Sigurður til Álfheiðar og bað hana að koma frá glugganum, eins og ítrekað hafði verið farið fram á. Álfheiður brást hins vegar illa við beiðninni og sagði Sigurði að honum kæmi ekki við hvernig hún hagaði sinni vinnu í Alþingishúsinu.

Lífvarðatittur og ráðherraræfill

Sigurður fylgdist áfram með Álfheiði og hvernig hún hagaði sér. Varð Álfheiður þá enn æstari við það og hrópaði að „leynilögreglan hefði verið að fylgjast með sér.“ Þegar Sigurður gekk svo niður á jarðhæð fékk hann kaldar kveðjur frá Álfheiði. „Hún sagði við lögreglumanninn þegar hann var að ganga frá henni: „Já, farðu bara lífvarðatitturinn þinn sem eltir ráðherraræfil alla daga.“ Það heyrðu margir í þinghúsinu hana segja þetta, bæði þingmenn og starfsfólk þingsins og einnig margir ráðherrabílstjórar,“ er haft eftir ónafngreindum lögreglumanni.

Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, staðfestir í bókinni að Álfheiður hafi verið afar æst og hafði upp miklar og dónalegar athugasemdir um lögreglumennina.

Búsáhaldabyltingin - sjálfsprottin eða skipulögð?
Búsáhaldabyltingin - sjálfsprottin eða skipulögð?
Mótmælendur í Alþingisgarðinum.
Mótmælendur í Alþingisgarðinum. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka