„Hélt að þetta væri löglegt“

Davíð Örn Bjarnason.
Davíð Örn Bjarnason. mbl.is

„Hefði ég vitað að það væri ólöglegt að kaupa steininn, þá hefði ég aldrei gert það,“ sagði Davíð Örn Bjarnason, sem nú er í fangelsi í Antalya í Tyrklandi vegna gruns um fornmunasmygl, við yfirheyrslur þann 8. mars síðastliðinn.

Samkvæmt yfirlýsingu Davíðs sem hann gaf eftir yfirheyrslur lögreglunnar í Antalya, keypti hann marmarasteininn örlagaríka af konu nokkurri við Aspendos, sem eru rústir frá tímum Rómverja og greiddi 30 evrur fyrir. 

„Þegar ég spurði hana hvort það væri löglegt af mér að kaupa hann, þá sagði hún svo vera. Ég keypti þennan stein því í þeirri trú að um væri að ræða lögleg kaup og einnig vegna þess að ég vinn við að innrétta hús og hef áhuga á steinum,“ segir Davíð í yfirlýsingunni. 

„Hefði ég vitað að það væri ólöglegt að kaupa steininn, þá hefði ég aldrei gert það. Leiðsögumaðurinn í ferðinni varaði okkur aldrei við þessu.“

Taldi sig vera að kaupa minjagrip

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir Davíð, sem mbl.is fékk sendan frá Tyrklandi, segir að lögmaður hans hafi farið fram á að hann fengi að fara úr landi og að handtaka verði látin falla niður á þeim forsendum að hann hafi talið sig vera að kaupa minjagrip en ekki verðmætar sögulegar minjar.

Í úrskurðinum segir að hætta sé á „glæpsamlegu athæfi“. Vegna þess að Davíð sé ekki búsettur í Tyrklandi, þá sé hætta á því að hann flýi land og því verði hann í varðhaldi.

Þá má geta þess að þau Stefán Hrafn Ólafsson og Ósk Ágústsdóttir hafa stofnað styrktarreikning til handa Davíð Erni og unnustu hans. Þau benda áhugasömum á reikningsnúmerið 0322-13-129886 og kennitalan 101281-3969.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert