„Getum við ekki sammælst um að vera hér fram að páskum í stað þess að láta eins og þingið klárist á morgun eða laugardag? Er ekki betra að vera raunsæ í stað þess að láta alltaf svona í lok þings?“ Svona spurði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, við upphaf þingfundar í dag.
Samkvæmt starfsáætlun þingsins fara fram eldhúsdagsumræður í kvöld, þingfundur er á morgun og þingfrestun á föstudag. Enn eru hins vegar ótal mál sem brýnt þykir að afgreiða frá þinginu.
Birgitta biðlaði til þingmanna, úr hvaða flokki sem er, að koma sér saman um að skora á forseta Alþingis að taka af skarið og skera úr um að þing standi fram til páska. „Það eru mörg mál sem brýnt er að ræða vel og fara ítarlega yfir. Ég nefni velferð dýra, náttúrulögin, ég er svo með miklar efasemdir um frumvarpið um Bakka og fiskveiðistjórnunarkerfið að ónefndri stjórnarskránni.“
Enginn þeirra þingmanna sem komu í ræðustól á eftir Birgittu höfðu orð á áskorun hennar.