„Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins ver enn þá ákvörðun sína að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun vegna þess að umhverfisáhrif virkjunarinnar væru óviðunandi í skilningi laganna og að mikið af upplýsingum um þau áhrif hafi skorti í matsskýrslu Landsvirkjunar.“
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Í tilkynningunni segir að ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur hafi verið í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þann 13. september 2001, viku eftir að umhverfisráðherra barst stjórnsýslukæra Landsvirkjunar, sagði Halldór Ásgrímsson í viðtali við Morgunblaðið: „... aðalatriðið er það, að þetta verði að veruleika og ríkisstjórnin er ákveðnari í því en nokkru sinni fyrr að þetta verði að veruleika.“
Náttúruverndarsamtökin segja að hefði Siv Friðleifsdóttir staðfest úrskurð Skipulagsstofnunnar hefði henni „þegar í upphafi mátt vera ljóst af viðbrögðum forustumanna ríkisstjórnarinnar að þar með væri ráðherraferli hennar lokið.
Séð út frá eigin hagsmunum Sivjar var því ákvörðun hennar því rétt.“
Hefði Siv Friðleifsdóttir túlkað 37. grein náttúruverndarlaga með sama hætti og Náttúruvernd ríkisins, Skipulagsstofnun eða jafnvel Náttúruverndarsamtök Íslands, þá hefði hún með ákvörðun sinni styrkt náttúruverndarlöggjöfina verulega, að mati Náttúruverndarsamtakanna. „Það gerði hún ekki vegna eigin hagsmuna og þeirrar ríkisstjórnar sem hún þjónaði og þess vegna var ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur um Kárahnjúkavirkjun röng og siðlaus.“