Botndýr rekur á land í Kolgrafafirði

Frá Kolgrafarfirði í desember á síðasta ári.
Frá Kolgrafarfirði í desember á síðasta ári. Ljósmynd/Róbert Arnar Stefánsson

„Botndýrin er farið að reka dauð á land,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um stöðu lífríkis í Kolgrafafirði. Hann segir þetta líklega afleiðingu umfangsmikils síldardauða í firðinum í desember á síðasta ári og í febrúar á þessu ári.

„Þetta eru dýr eins og krabbadýr, ígulker, kræklingur og annar skelfiskur,“ segir Róbert. „Þetta kemur ekki á óvart, það er viðvarandi lágur súrefnisstyrkur þarna á svæðinu,“ bætir hann við, en mikið magn af síld liggur á botninum á ákveðnum svæðum. Því er ekki að undra þótt botndýrin hafi það ekki af.

„Dýrin komast ekkert í burtu. Mörg þeirra eru botnföst og hreyfa sig mjög lítið og komast því ekki í burtu undir brúna,“ segir Róbert.

Aðspurður segir Róbert að Vegagerðinni og Hafrannsóknastofnun hafi verið falið að kanna hvort brúin og vegfyllingin sem komið var fyrir í firðinum hafi komið af stað síldardauðanum og nú dauða lindýra og krabbadýra í Kolgrafafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert