Góðviljaðir Íslendingar aðstoða Davíð

Davíð Örn Bjarnason.
Davíð Örn Bjarnason.

„Við erum ánægð með að hann er laus og það var auðvitað okkar fyrsta markmið að hann þyrfti ekki að sitja í fangelsi lengur en orðið er,“ segir Pétur Ásgeirsson, sviðstjóri í utanríkisráðuneytinu, um lausn Davíðs Arnar Bjarnasonar úr tyrknesku fangelsi. Hann var settur í farbann en mun dvelja í íbúð Íslendinga.

Pétur segir í samtali við mbl.is, að það hafi verið í morgun sem fulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins fékk að vita að tyrknesk yfirvöld hefðu ákveðið að sleppa Davíð úr fangelsi og setja hann í farbann til 25. apríl. Var fulltrúanum, sem flaug til Tyrklands frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, tilkynnt að hann gæti sótt Davíð á tiltekna lögreglustöð í Antalya.

Eftir að hafa sótt Davíð á lögreglustöðina lagði íslenski fulltrúinn það til að Davíð myndi gangast undir læknisskoðun en það afþakkaði Davíð. „Hann fór með fulltrúanum upp á hótel til hans og síðan var gengið í það að útvega honum það sem þyrfti í dag. Föt, snyrtivörur og annað sem menn þurfa að hafa,“ segir Pétur.

Davíð boðin afnot af íbúð Íslendinga

Davíð var handtekinn á flugvellinum í Antalya sl. föstudag grunaður um fornmunasmygl, en marmarasteinn fannst í farangri hans. Spurður hvernig Davíð hafi það eftir dvölina í fangelsinu, segir Pétur að hann beri sig vel og líði eftir atvikum vel. „Þetta hefur tekið á hann; það er ekki auðvelt að sitja í fangelsi,“ segir Pétur.

Aðspurður segir Pétur, að það hafi verið sett sem skilyrði fyrir lausn Davíðs að hann yrði að gefa upp aðsetur sitt í Tyrklandi á meðan hann biði eftir að málið verði tekið fyrir. „Það vildi svo heppilega til að góðviljaðir Íslendingar, sem eiga þarna íbúð, hafa boðið honum hana til afnota. Og hann mun nýta sér það og gert er ráð fyrir að hann flytji í þá íbúð á morgun,“ segir Pétur og bætir við að það fari vel um Davíð í Antalya.

Pétur segir aðspurður að það liggi ekki fyrir hvenær mál Davíðs verði tekið fyrir hjá tyrkneskum dómstólum. Það sé ekki sjálfgefið að fyrirtakan verði 25. apríl þegar farbannið rennur út. „Við verðum að vonast til þess að það geti orðið eitthvað fyrr,“ segir Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka