Halli ríkissjóðs þrefalt meiri

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Mér finnst stundum þegar stjórnarandstaðan ræðir hagvöxt, og nú þegar hann hefur  verið heldur minni heldur en menn bjuggust við, að hér sé bara fljúgandi hagvöxtur bara alls staðar í löndunum í kringum okkur. Það er bara ekki svoleiðis. Og það er svoleiðis að það er meiri hagvöxtur hér heldur en í mörgum þeim sem við berum okkur saman við í Evrópu og það er samdráttur líka á ýmsum stöðum eins og Danmörk, Bretlandi, Finnlandi og víðar.“

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag vegna fyrirspurnar frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði nýjar tölur frá Hagstofunni draga upp mjög dökka mynd af hagkerfinu á síðasta ári. Þannig hafi aðeins verið 1,6% hagvöxtur þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir 3% hagvexti og ríkissjóður verið rekinn með 60 milljarða króna halla en ekki 20 milljarða eins og að hafi verið stefnt.

Spurði hann ráðherrann hvað hún teldi að hefði brugðist í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hvort hún hefði átt von á meiri erlendri fjárfestingu, að atvinnulífið gæti fjárfest meira „þrátt fyrir endalausar skattahækkanir“ eða meiri einkaneyslu. „Er það ekki bara staðreynd, hæstvirtur forsætisráðherra, að stefna ríkisstjórnarinnar hefur algerlega brugðist og neikvæð áhrif þess að seilast sífellt dýpra í vasa fyrirtækjanna og heimilanna eru að birtast okkur í þessum tölum?“

Fjárfestingar aukist á næstu árum

Jóhanna sagði að þrátt fyrir minni hagvöxt en stefnt hafi verið að hafi hann engu að síður aukist tvö ár í röð og verið meiri en annars staðar. Þá stefndi til að mynda í 3,5% hagvöxt árið 2014 og 3,9% 2015 samkvæmt spám Seðlabanka Íslands sem vonandi gengju eftir. Ljóst væri að fjárfestingar hefðu ekki gengið eftir eins og vonast hefði verið eftir en atvinnuvegafjárfesting hefði engu að síður verið að aukast tvö ár í röð þó hún mætti vera meiri.

„Ég er alveg sannfærð um að ef þær fjárfestingar ganga eftir sem eru í pípunum, og við höfum gert ýmsa fjárfestingarsamninga á grundvelli þessara ívilnunarákvæða sem fyrir eru, þá muni fjárfestingar aukast hér verulega á næstu árum og þá hagvöxtur líka og gengi þær fjárfestingar eftir sem ívilnunarsamningar hafa verið reistir á þá erum við að tala um fjárfestingar upp á 290 milljarða króna og 2.200 ársverk. Og síðan erum við auðvitað að tala líka um þær fjárfestingar sem eru reistar á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þannig að þetta er nú ekki allt eins kolsvart eins og stjórnarandstaðan vill vera láta hér í ræðustól,“ sagði Jóhanna.

„Kjörtímabil hinna glötuðu tækifæra“

Bjarni sagði að það væri eitt að ræða um það að allt yrði betra ef fjárfestingar myndu aukast á næstu árum. Umræðan snerist hins vegar um það að fjárfestingar hefðu ekki tekið við sér. Þannig væri atvinnuvegafjárfesting 14% þegar hún ætti að vera 20% og hagvöxtur væri miklu lægri í samanburði við ríki sem lent hefðu í jafnmiklum öldudal og Ísland. Vísaði hann til skilaboða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008 um að í kjölfar samdráttarskeiðs kæmi kraftmikill hagvöxtur ef haldið yrði rétt á málum. Það hagvaxtarskeið hafi látið á sér standa.

„Það er mergurinn málsins. Þess vegna tölum við um þetta kjörtímabil sem ár hinna töpuðu, glötuðu tækifæra. Þess vegna er hagvöxturinn ekki hér vegna þess að það var valin röng leið. Ég spyr mig bara að því hver væri staðan ef ekki hefðu synt hingað inn í íslenska fiskveiðilögsögu 30 milljarða verðamæti af makríl, ef ekki hefði komið svona aukinn fjöldi ferðamanna til landsins og markaðir og skilyrði í hafinu fyrir aukinn útflutning á þorskafurðum eins og þau hafa verið. Þá værum við aldeilis fyrst í klemmu,“ sagði Bjarni ennfremur.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert