„Ég lít svo á að trúnaðarskylda lögmanns gagnvart skjólstæðingi sínum sé mikilvægur þáttur í sjálfstæði lögmannastéttarinnar,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður á fundi Lögmannafélags Íslands í dag. Yfirskrift fundarins var trúnaðarsamband lögmanna og skjólstæðinga þeirra, en Ragnar hélt erindi á fundinum.
„Þetta má orða með ýmsum hætti en Arthur Chaskalson, einn verjenda Nelson Mandela og einn helsti höfunda stjórnarskrár Suður-Afríku, vitnaði í ræðu í nóvember í fyrra til orða æðsta dómara í Nýja-Sjálandi sem sagði að viðunandi dómsniðurstaða hjá sjálfstæðum dómstólum væri ófær án sjálfstæðra lögmanna.“
„Allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar höfum við byggt á hugmyndum um réttarríki og mannréttindi. Stjórnarskrá Íslands tryggir aðgang allra að sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum. Dómstólarnir grafa undan stöðu sinni sem sjálfstæðir dómstólar ef þeir gera sér ekki grein fyrir því að tilvist þeirra og árangur í störfum er algjörlega háður því að til sé í landinu sjálfstæð lögmannastétt,“ sagði Ragnar.
„Við þurfum að koma þeim skilningi á framfæri við dómstólana, en þeir eru gæslumenn stjórnarskrárinnar, að þeir eiga að víkja til hliðar þeim lögum sem standast ekki stjórnarskrá og tryggja aðgang allra að dómstólum. Sjálfstæði lögmannastéttarinnar er hins vegar ekki tryggt í stjórnarskrá eða í þjóðréttarsamningum.“
Frétt mbl.is: Hlerað fyrir og eftir yfirheyrslu