Meiri halli en reiknað var með

Steingrímur J. Sigfússon kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2012 fyrir fjölmiðlum haustið …
Steingrímur J. Sigfússon kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2012 fyrir fjölmiðlum haustið 2011. mbl.is/Golli

Bráðabirgðatölur frá Fjársýslu ríkisins um greiðsluuppgjör ríkissjóðs benda til að hallinn á ríkissjóði á síðasta ári hafi verið 40,5 milljarðar og að frumjöfnuður ríkissjóðs hafi verið jákvæður um 18 milljarða á greiðslugrunni. Þetta er verri niðurstaða en fjárlögin gerðu ráð fyrir þegar þau voru samþykkt í árslok 2011.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Fjárlög eru bæði gerð upp á rekstrargrunni og greiðslugrunni. Á rekstrargrunni eru tekjur færðar í bókhald þegar þeirra er aflað án tillits til þess hvenær þær innheimtast og gjöld þegar þau falla til, óháð því hvenær þau koma til greiðslu. Með rekstrargrunni fæst betri mæling á afkomu en þegar miðað er við greiðslugrunn. Á sama hátt fæst einnig skýrari mynd af eignum og skuldum, séu reikningsskil miðuð við rekstrargrunn.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að þar sem veigamestu rekstrargrunnsuppgjörin fara ekki fram fyrr en síðar á þessu ári við lokun ríkisreiknings, s.s. lífeyrisskuldbindingar, afskriftir skattkrafna og aðrir óreglulegir útgjaldaliðir, séu þær niðurstöður sem nú liggja fyrir nær því að vera bráðabirgðatölur á greiðslugrunni. Ráðuneytið birtir því tölur í dag á greiðslugrunni.

Samkvæmt fjárlögum átti hallinn á greiðslugrunni að vera 34,7 milljarðar. Niðurstaðan er hins vegar 40,5 milljarðar. Fjárlög gerðu ráð fyrir jákvæðum afgangi á frumjöfnuði upp á 22,3 milljarða. Niðurstaðan er hins vegar afgangur á frumjöfnuði upp á 18 milljarða. Frumjöfnuður í rekstri ríkisins er afkoma án vaxtatekna og vaxtagjalda.

„Þetta er í fyrsta sinn eftir bankahrunið haustið 2008 sem afgangur næst á frumjöfnuði og hefur þar með fyrsta markmiði ríkisfjármálaáætlunar stjórnvalda verið náð. Sá árangur að ná jákvæðum frumjöfnuði er stór áfangi í því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, ná niður vaxtakostnaði og treysta forsendur velferðarsamfélagsins til framtíðar litið,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Batinn á frumjöfnuði 120 milljarðar frá 2009 til 2012

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í gær að hallinn á ríkissjóði á árunum 2010, 2011 og 2012 hefði verið 300 milljarðar.

Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins í dag segir hins vegar að ef litið sé á heildarafkomubata ríkissjóðs frá 2009 til 2012 á verðlagi hvers árs, miðað við þessi bráðabirgðauppgjör Fjársýslunnar á greiðslugrunni, hafi frumjöfnuður ríkissjóðs farið úr -100,7 milljörðum árið 2009 í 18 milljarða árið 2012. Batinn á frumjöfnuði yfir tímabilið er því tæplega 120 milljarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert