Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði, er staddur í Róm og hann snæddi morgunverð með Bergoglio kardínála 1. mars. Í gær var hann kjörinn páfi og tók sér nafnið Frans I. Þegar tilkynnt hafði verið um valið sagði Pétur: „Nýi páfinn er einn látlausasti og ljúfasti maður sem ég hef hitt og ég trúi því að heilagur andi hafi haft áhrif á þetta val.“
Þetta kemur fram í frétt á vef Biskupsstofu.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands fagnaði kjöri páfa í gærkvöldi og sagði af því tilefni: „Biðjum fyrir páfanum Frans I og gerum bæn nafna hans frá Assisi að okkar: Megi hann vera verkfæri friðar og boðberi vonar í heiminum.“
Hér vitnaði hún í þekkta bæn sem er kennd við heilagan Frans frá Assisi:
„Drottinn, gjör mig að verkfæri friðar þíns. Lát mig bera kærleika þangað sem hatrið er, fyrirgefning þangað sem ófriður ríkir, eining þangað sem ósættið er, trú þar sem efinn nagar, sannleika þangað sem villan blindar, von þangað sem örvænting er, huggun þar sem sorgin er, ljós þangað sem myrkrið grúfir.
Guðdómlegi meistari, lát mig fremur sækjast eftir að hugga en vera huggaður, frekar vilja skilja en vera skilinn, heldur að elska en njóta elsku.
Því að það er með því að gefa sem maður öðlast, með því að fyrirgefa öðlumst við fyrirgefningu og með því að deyja rísum við upp til eilífs lífs.“