Hæstiréttur sýknaði í dag mann af ákæru um kynferðisbrot. Maðurinn var í héraðsdómi dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í júlí 2011 sært blygðunarsemi þriggja nágranna sinna þegar hann birtist utandyra við hús sitt í skyrtu einni fata þannig að sést hafi í kynfæri hans, tekið um þau og viðhaft samfarahreyfingar í nokkra stund.
Í dómi Hæstaréttar segir að ekki lægi skýrt fyrir hvort maðurinn hafi verið nakinn eða í nærklæðum þegar atburðurinn átti sér stað. „Er framburður vitnanna þriggja því ýmist óstöðugur eða ber ekki saman um þau atriði sem ákæra lýtur að,“ segir í dómnum
Í dómnum segir ennfremur að líta verði til þess að samkvæmt gögnum málsins hafa ríkt nágrannaerjur milli þessara þriggja vitna og ákærða og eins verði að líta til þess að eitt vitnið í málinu hafi árið 2010 verið ákært fyrir líkamsárás gegn ákærða.