Ungir síbrotamenn í fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Dómar voru kveðnir upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag yfir 7 ungmennum fæddum á árunum 1990 til 1995 vegna margvíslegra brota. Þar á meðal voru innbrot í fjölda sumarbústaða og bíla, varsla þýfis og fíkniefna, líkamsárás, fíkniefnaakstur og þjófnaður á 3 milljónum króna frá Jarðböðunum á Mývatni.

Stór hluti ákæruliða þótti ósannaður og var sýknað fyrir þau brot.

12 og 18 mánaða fangelsi

Þyngstan dóm hlutu tveir piltar, 20 og 22 ára gamlir. Sá eldri var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og sviptingu ökuréttar í 9 mánuði. Hinn hlaut 12 mánaða fangelsisdóm en frá honum dragast 6 mánuðir sem hann hefur nú þegar setið af sér í gæsluvarðhaldi.

Þriðji pilturinn, 22 ára gamall, var dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökurétti í 14 mánuði. Sjá fjórði hlaut 6 mánaða fangelsisdóm auk 12 mánaða sviptingar á ökurétti. Fimmti pilturinn var aðeins dæmdur til sektargreiðslu. Tvær stúlkur, fæddar 1991 og 1995, voru sýknaðar af öllum ákæruliðum.

Endurgreiða Jarðböðunum 3 milljónir

Ákærurnar gegn ungmennunum spanna 18 blaðsíður enda um margvísleg brot að ræða á tímabilinu frá sumrinu 2011 og fram á haust 2012. Þar á meðal eru tveir piltanna dæmdir fyrir stórfelldan þjófnað eftir innbrot í Jarðböðin á Mývatni í ágúst 2012 þar sem þremur milljónum króna var stolið úr peningaskáp.

Piltunum er gert að endurgreiða eigendum Jarðbaðanna upphæðina með vöxtum. Stúlkurnar tvær voru einnig ákærðar fyrir aðild að innbrotinu en neituðu sök og voru báðar sýknaðar.

Piltarnir létu víða greipar sópa, meðal annars í sumarbústaðalandi við Meðalfellsvatn þar sem tveir piltanna brutust inn í 9 sumarhús og stálu þar ýmsum verðmætum, m.a. flatskjám, myndavélum, veiðistöng, áfengisflöskum og matvælum.

Köstuðu brennandi flösku inn í bíl

Sömuleiðis brutust piltarnir inn í fjölda bíla og stálu þar verðmætum. Tveir þeirra eru auk þess dæmdir fyrir stórfelld eignaspjöll með því að hafa kveikt í bíl á bílastæði í Hafnarfirði, en þeir brutu rúðu í bílnum og köstuðu inn brennandi flösku þannig að bíllinn brann til kaldra kola.

Dæmd voru upptæk úr fórum piltanna rúm 47 grömm af amfetamíni, 0,12 grömm af maríjúana, 1,14 grömm af tóbaksblönduðu kannabis, 24 kannabisplöntur, tveir ljóslampar, straumbreytir og gróðurtjald.

Sýknað var í ýmsum ákæruliðum, m.a. fyrir fjölda innbrota.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert