Ísland varð í gær aðili að þróunarsamvinnunefnd Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD DAC), eins og stefnt hefur verið að samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2011. Að því tilefni lýsti Erik Solheim, formaður nefndarinnar, því yfir að um sögulega stund væri að ræða, Ísland eigi að baki yfir 30 ára reynslu af þróunarsamvinnu og eigi fullt erindi í nefndina.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Þróunarsamvinnunefndin er samstarfsvettvangur OECD ríkja sem veita þróunaraðstoð samkvæmt sameiginlegum viðmiðum um framkvæmd aðstoðar og stuðlar að faglegu aðhaldi. Við aðild Íslands eiga nú 25 ríki af 34 aðildarríkjum OECD sæti í nefndinni.
Nýlega vann sendinefnd á vegum DAC sérstaka úttekt á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, sem sýndi fram á burði Íslands til aðildar. Niðurstöður úttektarinnar voru mjög jákvæðar: Þróunarsamvinna Íslands byggi á traustum og faglegum grunni og aðdáunarvert sé að Ísland hafi skuldbundið sig til að auka framlög til þróunarsamvinnu þrátt fyrir erfiðar efnahagslegar aðstæður.
Aðild Íslands að þróunarsamvinnunefndinni markar straumhvörf í þátttöku Íslendinga á vettvangi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Með aðild að nefndinni gengur Ísland í hóp þeirra ríkja sem fremst standa á sviði þróunarsamvinnu og leggja metnað sinn í að veita skilvirka og árangursríka þróunaraðstoð. Sem aðildarríki getur Ísland þannig, með markvissari hætti, unnið að því að auka árangur þróunarsamvinnu Íslands enn frekar og tryggt að hún standist samanburð við það besta sem gerist á alþjóðavettvangi.