Harðorða ályktun um kjaramál var samþykkt á aðalfundi SFR - stéttarfélags í almannaþágu í gær. Þar eru ítrekaðar kröfur um að stjórnvöld setji tafarlaust fram raunhæfar tillögur til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu auk þess sem krafist er vinnu sem miði að því að stytta vinnuvikuna.
Ályktunin er svo hljóðandi:
Aðalfundur SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu krefst þess að kjör starfsmanna innan almannaþjónustunnar verði bætt. Starfsmenn innan hins opinbera hafa á síðast liðnum árum búið við aukið álag, og skerðingu á kjörum. Standa þarf vörð um þá verðmætasköpun sem á sér stað. Tryggja þarf samkeppnishæfi starfa á opinberum markaði til þess að gæði þjónustunnar verði ekki rýrð enda ein af grunnstoðum íslensks samfélags.
Aðalfundur SFR krefst þess, að lögfest verði að, vinnuvika vaktavinnufólks verði ekki lengri en 80% af vinnuviku dagvinnufólks. Þá krefst aðalfundur SFR þess að vinna sem miðar að skilgreiningu vinnu- og vinnuaðstöðu vaktavinnufólks verði kláruð. Rannsóknir á sviði lýðheilsu hafa fyrir löngu sýnt fram á slæm heilsufarsleg áhrif vaktavinnu.
SFR krefst þess að farið verði í vinnu sem miðar af því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir.
SFR ítrekar kröfur sína um að stjórnvöld setji tafarlaust fram raunhæfar tillögur um að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi.