Kyrrðin heillar erlenda ferðamenn

„Enskan er orðin móðurmál mitt og franskan annað mál,“ segir Frímann Ingvarsson, skálavörður í Landmannalaugum. Þessi mikla náttúruparadís dregur að sér fólk hvaðanæva af úr heiminum allan ársins hring en að sögn hans hefur verið stöðugur straumur ferðamanna á svæðið í vetur. Erlendir ferðamenn eru þar í miklum meirihluta.„Það væri þó gaman að fá fleiri Íslendinga,“ segir Frímann.

Erlendu ferðamennirnir koma yfirleitt á vegum ferðaþjónustufyrirtækja í skíðagöngu- og snjóþrúguferðir. „Erlendu ferðamennirnir sækja í kyrrðina sem ríkir á svæðinu,“segir Frímann. Í skálanum er rennandi vatn og salernisaðstaða. Að sögn Frímann kjósa erlendu ferðamennirnir þó sumir að dvelja í öðrum skála þar sem slík þægindi eru ekki í boði og vilja þannig komast enn frekar í tengsl við náttúruna.

Íslensku ferðamennirnir halda uppi íslenskri útilegustemningu allan ársins hring. „Þeir fara í sund, fá sér bjór og grilla, jafnt sumar sem vetur,“ segir Frímann og hlær.  

Hópferðirnar eru vinsælar en sumir heillast af einverunni. „Ég á von á einum á næstum dögum sem ætlar að ganga Laugaveginn einn og yfirgefinn," segir Frímann. 

„Ég hef fundið þrjú refagreni nálægt skálanum, spor eftir mýs og refi. Einnig eru tveir hrafnar hérna rétt hjá,“ segir Frímann. „Útlendingunum finnst þetta spennandi og það sakar ekki að hafa lítinn spörfugl á vappi,“ bætir þessi vaski skálavörður við, kveður og heldur áfram með dagsverkin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert