Ólafía nýr formaður VR

Ólafía B. Rafnsdóttir.
Ólafía B. Rafnsdóttir.

Ólafía Björk Rafns­dótt­ir er nýr formaður VR en hún vann af­ger­andi sig­ur í alls­herj­ar­at­kvæðagreiðslu til for­manns VR en hún hlaut 76,1% at­kvæða. Formaður VR er kjör­inn á tveggja ára fresti.

Stefán Ein­ar Stef­áns­son, frá­far­andi formaður, hlaut 23,9% at­kvæða.

Alls­herj­ar­at­kvæðagreiðsla vegna kosn­inga til for­manns og stjórn­ar VR stóð frá 7. mars til kl. 12:00 í dag. At­kvæði greiddu 6.353. Á kjör­skrá voru alls 29.439. Kosn­ingaþátt­taka var því 21,58%.

Sjö stjórn­ar­menn voru kjörn­ir til tveggja ára sam­kvæmt fléttulista eins og kveðið er á um í 20. gr. laga VR. Í stjórn­inni eru

  • Ásta Rut Jón­as­dótt­ir
  • Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son
  • Rann­veig Sig­urðardótt­ir
  • Páll Örn Lín­dal
  • Helga Ing­ólfs­dótt­ir
  • Birg­ir Már Guðmunds­son
  • Guðrún Björk Hall­björns­dótt­ir

Þrír vara­menn í stjórn VR – til eins árs

  • Bene­dikt Vil­hjálms­son
  • Kristjana Þor­björg Jóns­dótt­ir
  • Óskar Kristjáns­son

Fram kem­ur á vef VR að þess­ir aðilar séu rétt­kjörn­ir og hefst kjör­tíma­bil þeirra á aðal­fundi VR fyr­ir árið 2013 sem hald­inn verður í apríl.

Ólafía út­skrifaðist með MBA-gráðu við Há­skóla Íslands árið 2012, lauk námi í mannauðsstjórn­un við End­ur­mennt­un Há­skóla Íslands árið 2005 og verk­efna­stjórn­un og leiðtogaþjálf­un við End­ur­mennt­un Há­skóla Íslands árið 2004. Á ára­bil­inu 1996-2013 sinnti hún margsinn­is snörp­um álags­verk­efn­um sem kosn­inga­stjóri.

Hún starfaði hjá 365 miðlum ehf. 2005-2012. Þar var hún fram­kvæmda­stjóri mannauðssviðs og sá m.a. um þverfag­leg verk­efni og kjara­samn­ings­gerð. Hún var áður fram­kvæmda­stjóri starfs­manna- og þjón­ustu­sviðs og verk­efna­stjóri áskrifta­sölu­deild­ar hjá fyr­ir­tæk­inu.

Hún var deild­ar­stjóri inn­heimtu­deild­ar Tals 1999-2002, þjón­ust­u­stjóri Islandia In­ter­net ehf. 1997-1999. Starfaði á skrif­stofu VR 1989-1996, hóf þar störf í mót­töku, síðan í kjara­mála­deild, var í af­leys­ing­um við sjúkra­sjóð og sá síðan um bók­hald VR og skyldra fé­laga.

Þá var Ólafía formaður starfs­greinaráðs skrif­stofu- og versl­un­ar­greina 2011, í stjórn Kven­rétt­inda­fé­lags Íslands 1995-2001, varamaður í jafn­rétt­is­ráði 2001-2003 og formaður landsliðsnefnd­ar kvenna í hand­bolta 1995-1996.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert