Ólafía Björk Rafnsdóttir er nýr formaður VR en hún vann afgerandi sigur í allsherjaratkvæðagreiðslu til formanns VR en hún hlaut 76,1% atkvæða. Formaður VR er kjörinn á tveggja ára fresti.
Stefán Einar Stefánsson, fráfarandi formaður, hlaut 23,9% atkvæða.
Allsherjaratkvæðagreiðsla vegna kosninga til formanns og stjórnar VR stóð frá 7. mars til kl. 12:00 í dag. Atkvæði greiddu 6.353. Á kjörskrá voru alls 29.439. Kosningaþátttaka var því 21,58%.
Sjö stjórnarmenn voru kjörnir til tveggja ára samkvæmt fléttulista eins og kveðið er á um í 20. gr. laga VR. Í stjórninni eru
Þrír varamenn í stjórn VR – til eins árs
Fram kemur á vef VR að þessir aðilar séu réttkjörnir og hefst kjörtímabil þeirra á aðalfundi VR fyrir árið 2013 sem haldinn verður í apríl.
Ólafía útskrifaðist með MBA-gráðu við Háskóla Íslands árið 2012, lauk námi í mannauðsstjórnun við Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2005 og verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2004. Á árabilinu 1996-2013 sinnti hún margsinnis snörpum álagsverkefnum sem kosningastjóri.
Hún starfaði hjá 365 miðlum ehf. 2005-2012. Þar var hún framkvæmdastjóri mannauðssviðs og sá m.a. um þverfagleg verkefni og kjarasamningsgerð. Hún var áður framkvæmdastjóri starfsmanna- og þjónustusviðs og verkefnastjóri áskriftasöludeildar hjá fyrirtækinu.
Hún var deildarstjóri innheimtudeildar Tals 1999-2002, þjónustustjóri Islandia Internet ehf. 1997-1999. Starfaði á skrifstofu VR 1989-1996, hóf þar störf í móttöku, síðan í kjaramáladeild, var í afleysingum við sjúkrasjóð og sá síðan um bókhald VR og skyldra félaga.
Þá var Ólafía formaður starfsgreinaráðs skrifstofu- og verslunargreina 2011, í stjórn Kvenréttindafélags Íslands 1995-2001, varamaður í jafnréttisráði 2001-2003 og formaður landsliðsnefndar kvenna í handbolta 1995-1996.